Lærisveinar Jóhannesar fallnir - Hólmar í Evrópukeppni

Jóhannes Harðarson og lærisveinar hans eru fallnir.
Jóhannes Harðarson og lærisveinar hans eru fallnir. Ljósmynd/Ole Endre Kallhovd/Ik Start

Start féll í kvöld úr norsku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir 0:4-tap fyrir Vålerenga á útivelli í lokaumferðinni. Mjøndalen vann á sama tíma 3:0-sigur á þegar föllnu liði Aalesund og fór upp fyrir Start. 

Jóhannes Harðarson er þjálfari Start og Guðmundur Andri Tryggvason er leikmaður liðins en hann lék ekkert á leiktíðinni vegna meiðsla. Start entist aðeins í eitt tímabil í efstu deild, líkt og Aalesund, en liðin fóru saman upp í efstu deild á síðustu leiktíð. 

Viðar Örn Kjartansson skoraði fyrsta mark Vålerenga og lék fram að 64. mínútu þegar Matthías Vilhjálmsson leysti hann af hólmi í sínum síðasta leik með norska liðinu en hann gengur í raðir FH eftir leiktíðina. Dagur Dan Þórhallsson lék ekki með Mjøndalen, sem fer í fallumspil, gegn Aalesund en Davíð Kristján Ólafsson lék fyrri hálfleikinn með Aalesund. 

Mjöndalen endaði í þriðja neðsta sæti og fer nú í úrslitaleik um sæti í deildinni gegn Sogndal sem vann umspil liðanna í þriðja til sjötta sæti B-deildarinnar.

Sandefjord og Rosenborg skildu jöfn, 0:0 og nægði stigið Rosenborg til að komast í Evrópukeppni, en Hólmar Örn Eyjólfsson lék allan leikinn í hjarta varnarinnar. Viðar Ari Jónsson kom inn á sem varamaður á 59. mínútu hjá Sandefjord en Emil Pálsson var ekki í leikmannahópi liðsins. Sandefjord endar í 11. sæti með 35 stig. 

Jón Guðni Fjóluson lék allan leikinn með Brann í 2:1-sigri á Odd. Jón Guðni hefur verið mikilvægur í vörn Brann eftir að hann kom til félagsins frá Krasnodar í Rússlandi á miðri leiktíð. Brann endar í 10. sæti með 36 stig.

Fylkismennirnir Valdimar Þór Ingimundarson og Ari Leifsson léku báðir allan leikinn með Strømsgodset sem fékk 0:4-skell á heimavelli gegn Stabæk. Strømsgodset endar í 13. sæti með 31 stig. 

Alfons Sampsted og félagar hans í Bodø/Glimt tryggðu sér sigurinn í deildinni fyrir nokkru síðan en liðið hafði óvænt gríðarlega mikla yfirburði í deildinni og unnu hana að lokum með 19 stiga mun. Skoraði liðið 103 mörk í 30 leikjum, sem er met í norsku úrvalsdeildinni, og var Alfons fastamaður í liðinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert