FIFA: Einbeitið ykkur að fótboltanum

Gianni Infantino, forseti FIFA hvertur löndin sem leika á HM …
Gianni Infantino, forseti FIFA hvertur löndin sem leika á HM að einbeita sér að fótboltanum. AFP

Forseti Alþjóðaknatt­spyrnu­sam­bands­ins (FIFA), Gianni Infantino og framkvæmdastjóri sambandsins, Fatma Samoura, sendu bréf til þjóðanna 32 sem leika á heimsmeistaramóti karla í Katar og hvöttu þær til að einbeita sér að fótboltanum frekar en pólitíkinni. 

Heimsmeistaramótið í ár hefur verið eitt umdeildasta mót sögunnar en mikið hefur verið fjallað um láglaunaverkamennina sem vinna að gerð vallanna og að gera mótið sjálft klárt. Margir þeirra hafa látið lífið við undirbúning mótsins. Einnig eru mismununarlög sem refsa samkynhneigðum heitt umræðuefni í aðdraganda mótsins. 

Infantino og Samoura skrifuðu þó bréf til þjóðanna 32 og hvöttu þær að einbeita sér að fótboltanum. „Getum við vinsamlegast einbeitt okkur að fótboltanum. Við vitum að fótboltinn lifir ekki einsamall og erum meðvituð um að það eru margar áskoranir sem og erfiðleikar af pólitískum toga um allan heim. 

En vinsamlegast ekki láta draga fótboltann inn í hvaða hugmyndafræðilegu eða pólitísku baráttu sem til er. Hjá FIFA reynum við að virða allar skoðanir og trúarbrögð án þess að deila siðferðislegum lærdómum til heimsbyggðarinnar. 

Einn af helstu eiginleikum heimsbyggðarinnar er svo sannarlega fjölbreytileikinn og við eigum að bera virðingu fyrir því. Engin þjóð eða menning er betri en önnur. Það eru allir velkomnir til Katar óháð uppruna, bakgrunni, trú, kynhneigð eða þjóðerni,“ stóð meðal annars í bréfinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert