Zia heimsmeistari í brids

Zia Mahmood spilar á Bridshátíð í Reykjavík fyrir nokkrum árum.
Zia Mahmood spilar á Bridshátíð í Reykjavík fyrir nokkrum árum. mbl.is/Kristinn

Bandaríkjamenn urðu í kvöld heimsmeistarar í brids þegar þeir lögðu Ítala í úrslitaleik um Bermúdaskálina. Í sigurliðinu spilaði m.a. Zia Mahmood, sem er Pakistani að uppruna en hefur búið lengi í Bandaríkjunumn. Zia hefur oft komið hingað til lands til að spila brids.

Í bandaríska liðinu spiluðu einnig Bob Hamman, Eric Rodwell, Jeff Meckstroth, Nick Nickell og Ralph Katz. Keppt hefur verið um Bermúdaskálina frá árinu 1950. Bandaríkjamenn hafa unnið 18 sinnum, Ítalar 14 sinnum, Frakkar tvisvar og Íslendingar, Bretar, Brasilíumenn, Hollendingar og Norðmenn einu sinni. 

Kínverjar urðu í gær heimsmeistarar í kvennaflokki í brids í fyrsta skipti en kínversku konurnar lögðu Frakka í úrslitaleik, sem lauk í gær. Þá unnu Englendingar Pólverja í úrslitaleik í öldungaflokki.

Norðmennirnir Tor Helness og Geir Helgemo, sem einnig eru íslenskum spilurum að góðu kunnir, unnu síðan opið heimsmeistraramót í sveitakeppni, sem lauk í dag. Norðmennirnir spiluðu í sveit með Pólverjunum Cesary Balici og Adam Zmudzinski og Frökkunum Pierre Zimmermann og Franck Multon. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert