Atvinnumennska í hjólreiðum aldrei söm

Bandaríkjamaðurinn Lance Armstrong sem eftirminnilega féll af háum stalli sínum sem einn mesti hjólreiðagarpur sögunnar er mönnum enn ofarlega í huga, ekki síst í heimi keppnishjólreiða. Þeir sem þekkja til segja að atvinnumennska í hjólreiðum verði aldrei litin sömu augum.

Alþjóða hjólreiðasambandsins (UCI)setti bandaríska hjólreiðagarpinn í ævilangt bann og afmáði nafn hans úr afrekaskrám í síðasta mánuði. Þar á meðal var Armstrong sviptur titlum fyrir sjö sigra í Frakklandsreiðinni (Tour de France), mestu hjólreiðakeppni heims.

Armstrong hefur verið sagður lykilmaður í „flóknasta, faglegasta og árangursríkasta lyfjanotkunarverkefni sem íþóttirnar hafa nokkru sinni séð“. Árangur hans og sýnileiki varð eitt sinn til að auka vinsældir hjólreiða í Bandaríkjunum með meiri og viðvarandi hætti en áður. En nú er öldin önnur og enn ófyrirséð hvaða áhrif fall Armstrongs - og fleiri hjólreiðakappa - kemur til með að hafa á greinina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert