Hlynur sigraði í Kaldalshlaupinu

Hlynur Andrésson hefur byrjað sumarið vel.
Hlynur Andrésson hefur byrjað sumarið vel. mbl.is/Eva Björk

Veður setti talsverðan svip á keppni á Vormóti ÍR sem haldið var í 73. sinn í gær á Laugardalsvelli en einnig í Laugardalshöll. Færa varð nokkrar keppnisgreinar inn í frjálsíþróttahluta Hallarinnar vegna veðursins. Þá varð að fella niður keppni í nokkrum greinum vegna engrar eða lélegrar þátttöku vegna veðursins.

Hlynur Andrésson, ÍR, sem vann óvæntan sigur í 5.000 metra hlaupi á Smáþjóðaleikunum, kom langfyrstur í mark í 3.000 m hlaupi, svokölluðu Kaldalshlaupi sem kennt er við Ólympíufarann og langhlauparann Jón Kaldal. Hlynur kom í mark á 8.45,75 mínútum og var 46 sekúndum á undan Huga Harðarsyni, sem varð annar.

Guðni Valur Guðnason, kastarinn efnilegi úr ÍR, lét veðrið ekki stöðva sig og kastaði kringlunni 54,99 metra og náði sínum þriðja besta árangri. Hann var nærri tíu metrum á undan næsta keppanda.

Vigdís Jónsdóttir úr FH, Íslandsmethafi í sleggjukasti, þeytti sleggjunni 56,55 metra og var aðeins um tveimur metrum frá meti sínu þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

Ari Bragi Kárason kom fyrstur í mark í 100 m hlaupi á 11,13 sekúndum í talsverðum mótvindi, eða 2,2 metrum á sekúndu. Kolbeinn Höður Gunnarsson varð annar á 11,19 sekúndum og Juan Ramos Borges þriðji á 11,24.

Kolbeinn Höður vatt sér því næst í 200 m hlaupið og kom fyrstur í mark á 21,91 sekúndu. Ari Bragi varð að gera sér annað sætið að góðu á 22,44. Þorsteinn Ingvarsson, ÍR, stökk allra karla lengst í langstökki, 7,36 metra, en keppt var í stökkum innan dyra í Laugardalshöllinni. Kristinn Torfason, sem vann langstökkskeppni Smáþjóðaleikanna, varð annar með 7,24 metra. Hulda Þorsteinsdóttir vann í stangarstökki með 3,80 metra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert