Þetta verður algjör bylting

Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ.
Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, segir að það muni koma betur í ljós síðar á þessu ári hversu mikil bylting það verður fyrir íslenskt afreksfólk að stjórnvöld hækki framlag sitt til afreksíþrótta.

Sjá frétt mbl.is: ÍSÍ úthlutar 250 milljónum á árinu

ÍSÍ úthlutaði nú í hádeginu 150 milljónum úr Afrekssjóði sínum, en það var eftir gömlum reglum ef svo má segja. Eftir Íþróttaþing ÍSÍ í vor mun verða kynnt til sögunnar ný reglugerð Afrekssjóðs, sem í kjölfarið mun úthluta um 100 milljónum til viðbótar.

„Nú erum við að úthluta úr sama potti og á síðasta ári, svo með óbreyttum reglum erum við ekki að taka tillit til þeirrar hækkunar sem verður á þessu ári. Því verður úthlutað í vor eða í byrjun sumar,“ sagði Lárus við mbl.is að loknum fréttamannafundi í dag.

Stjórnvöld undirrituðu samning þess efnis að framlög til afreksíþrótta á Íslandi yrðu 200 milljónir árið 2017 og hækka um hundrað milljónir á ári til ársins 2019. Það er því ljóst að þeirra áhrifa mun ekki gæta fyrr en síðar í ár.

„Það verður orðin algjör bylting, miðað við það að ekki eru nema 4-5 ár síðan við vorum með 20-30 milljónir í framlög frá ríkinu. Þetta mun gjörbreyta möguleikum sjóðsins til þess að vinna með afreksfólkinu og mun gjörbreyta þeirra umgjörð, bæði í æfingum og keppni, sem hefur vantað gríðarlega fjármuni til þess að standa almennilega að í gegnum tíðina,“ sagði Lárus Blöndal við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert