Lagt til að KSÍ fái ekki úthlutun

Andri Stefánsson, Friðrik Einarsson og Þórdís Gísladóttir áttu sæti í …
Andri Stefánsson, Friðrik Einarsson og Þórdís Gísladóttir áttu sæti í vinnuhópnum. Ljósmynd/ÍSÍ

Vinnuhópur um endurskoðun á reglum Afrekssjóðs ÍSÍ leggur til að þegar sérsamband sé sjálfbært, eins og KSÍ er í dag, fái það ekki úthlutun úr Afrekssjóði ÍSÍ. Hópurinn kynnti skýrslu sína fyrir blaðamönnum í dag. 

Skýrslan

Í skýrslunni er Knattspyrnusamband Íslands skilgreint sem sjálfbært sérsamband en þar er nefnt að mögulegt sé að Golfsamband Íslands og Íþróttasamband fatlaðra gætu einnig náð þeirri stöðu á næstu árum. Gert er ráð fyrir því að staða sérsambanda geti breyst bæði til hins betra og verra en eins og hópurinn metur stöðuna í dag þá fellur einungis Knattspyrnusambandið í þennan flokk. KSÍ hefur sótt um styrki úr Afrekssjóði og fengið en síðustu árin hafa þeir verið eyrnamerktir A-landsliði kvenna, alla vega að stærstu leyti. Lagt er til að heimildir Afrekssjóðs ÍSÍ til að hafna umsóknum verði styrktar. 

Í máli Stefáns Konráðssonar, formanns vinnuhópsins, á blaðamannafundinum í dag kom fram að miðað við þá ársreikninga sem KSÍ legði fram væri ekki þörf fyrir sambandið á að sækja um styrk úr Afrekssjóði miðað við þær upphæðir sem þar væru í boði. Staða KSÍ væri einfaldlega það sterk og sé það mikið gleðiefni fyrir íþróttahreyfinguna. 

Stefán er formaður íþróttanefndar ríkisins og fyrrverandi framkvæmdastjóri ÍSÍ. Ásamt honum störfuðu í vinnuhópnum þau Andri Stefánsson, starfsmaður afrekssviðs ÍSÍ, Friðrik Einarsson, fyrrverandi formaður afreks- og ólympíusviðs ÍSÍ og fv. formaður Skíðasambands Íslands, og Þórdís Gísladóttir, doktor í íþróttafræði og ólympíufari. 

Vinnuhópurinn var skipaður í september 2016 af framkvæmdastjórn ÍSÍ til að gera tillögur um breytingar á reglum Afrekssjóðs ÍSÍ. Hann getur því ekki annað en lagt til þá niðurstöðu sem finna má í skýrslunni en íþróttahreyfingarinnar er að taka ákvörðun. Til þess gæti þurft að fara í lagabreytingar enda víða komið við í skýrslunni en væntanlega tekur framkvæmtastjórn ÍSÍ skýrsluna fyrir áður en lengra er haldið. 

Mikil vinna liggur að baki skýrslunni en vinnuhópurinn fundaði með ýmsum aðilum innan íþróttahreyfingarinnar auk þess að kynna sér sérstaklega vinnulag vegna afreksmála í Danmörku, Noregi og Hollandi. Þá voru álitsgjafar fengnir sem ráðgefandi aðilar en margir þeirra hafa umtalsverða reynslu af afreksstarfi erlendis. Þessi aðilar eru: 

Bjarni Friðriksson, bronsverðlaunahafi á Ólympíuleikum, júdóþjálfari
Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska/japanska karlalandsliðsins í handknattleik
Elísabet Gunnarsdóttir, knattspyrnuþjálfari í Svíþjóð
Erlingur Jóhannsson, prófessor við Háskóla Íslands og háskólann í Bergen, Noregi
Eyleifur Jóhannesson, sundþjálfari í Danmörku
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska karlalandsliðsins í handknattleik
Guðmundur Þ. Harðarson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í sundi
Gunnar Páll Jóakimsson, frjálsíþróttaþjálfari
Harpa Óskarsdóttir, yfirmaður unglingalandsl. í áhaldafiml. hjá sænska fimleikasambandinu
Heimir Hallgrímsson, landsliðsliðsþjálfari í knattspyrnu
Hrannar Hólm, körfuknattleiksþjálfari og fyrrverandi landsliðsþjálfari Danmerkur
Ingi Þór Einarsson, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík, sundþjálfari
Kristinn Björnsson, skíðaþjálfari í Noregi
Úlfar Jónsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í golfi
Vésteinn Hafsteinsson, frjálsíþróttaþjálfari í Svíþjóð
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik

Stefán Konráðsson fór fyrir starfi vinnuhópsins.
Stefán Konráðsson fór fyrir starfi vinnuhópsins. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert