Mynd af líki Emiliano Sala í dreifingu

Mynd af Emiliano Sala fyrir utan leikvang Nantes.
Mynd af Emiliano Sala fyrir utan leikvang Nantes. AFP

Mynd sem sögð er vera af líki knattspyrnumannsins Emiliano Sala, sem lést í flugslysi fyrr á árinu, hefur verið birt á netinu og er í dreifingu á samfélagsmiðlum. Málið krefst tafarlausrar rannsóknar lögreglu. BBC greinir frá þessu. 

Lík Sala fannst í flaki flugvélar í Ermasundinu tveimur vikum eftir að hún hafði horfið í nágrenni Guernsey, breskrar eyju í Ermasundi. 

„Við vitum af því að mynd sem sögð er vera af lík Sala hefur verið dreift á samfélagsmiðlum og okkur býður við því að einhver hafi gert þetta,“ segir talsmaður lögreglunnar í Dorset sýslu. „Við erum að rannsaka atvikið og vinnum með fjölda annarra að því að upplýsa það hvernig myndin var tekin og hver er ábyrgur fyrir henni.“

Faðir Sala lést þremur mánuðum eftir hvarfið

Á föstudaginn var tilkynnt að faðir Sala, Horacio Sala, hefði dáið eftir að hafa fengð hjartaáfall þremur mánuðum eftir dauða sonar síns. 

„Fjölskylda Sala á greinilega mjög erfitt núna og ætti ekki að þurfa að þjást meira. Þessi svívirðilega myndbirting mun áreiðanlega valda þeim meiri þjáningum,“ segir talsmaður lögreglunnar í Dorset sýslu. 

Sala hafði verið á leiðinni á leiðinni á fyrstu æfingu með Cardiff City þegar flugvélin brotlenti. Lík flugmannsins, David Ibbotson, er enn ófundið.

„Cardiff City FC tjáir viðbjóð sinn á þeim sem tóku myndina og dreifðu henni í hugsanaleysi. Þetta er óhæfuverk,“ segir talsmaður Cardiff.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert