Birgir Leifur: „Ég ætla að sækja af krafti“

Birgir Leifur Hafþórsson á TCL-meistaramótinu í Kína.
Birgir Leifur Hafþórsson á TCL-meistaramótinu í Kína. mbl.is/Elísabet Halldórsdótir.

„Ég er hæstánægður með hringinn og ég var að slá betur af teig í dag og púttin eru einnig í lagi,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson atvinnukylfingur úr GKG við mbl.is rétt í þessu en hann náði sér vel á strik á öðrum keppnisdegi á Valle Romano meistaramótinu á Spáni. Birgir fékk fimm fugla og einn skolla en hann lék á 68 höggum í dag og 73 höggum í gær og er hann samtals á þremur höggum undir pari vallar.

„Á mótinu á Ítalíu í síðustu viku var ég að pútta vel og ég finn að ég er að ná sömu tilfinningunni í púttunum hérna á Spáni. Það skiptir öllu máli að pútta vel og ég ætla mér að sækja af krafti á næstu tveimur hringjum. Ef mér tekst að vera í einu af 10 efstu sætunum þá kemst ég inn á opna írska meistaramótið í næstu viku,“ sagði Birgir Leifur en nánar verður rætt við hann í Morgunblaðinu á morgun.

Staðan á mótinu.

Skorkort Birgis.

birgirleifur.blog.is

Mótið á Spáni er áttunda mótið á Evrópumótaröðinni hjá Birgi á þessu keppnistímabili. Hann náði besta árangri sínum frá upphafi um liðna helgi er hann endaði í 11.-13. sæti á opna ítalska meistaramótinu. Hann fór upp um 52 sæti á peningalista Evrópumótaraðarinnar eftir það mót og er hann í 163. sæti á þeim lista.

Birgir hefur unnið sér inn tæplega 4 millj. kr. í verðlaunafé á tímabilinu og aðeins tvívegis hefur hann ekki komist í gegnum niðurskurðinn að loknum öðrum keppnisdegi af alls fjórum. Birgir þarf líklega að vinna sér inn á bilinu 15-17 millj. kr. á keppnistímabilinu til þess að halda keppnisrétti sínum á Evrópumótaröðinni en 115. efstu á peningalistanum fá sjálfkrafa keppnisrétt á næsta tímabili.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka