Allir bestu kylfingarnir með á Íslandsmótinu

Sigurpáll Geir Sveinsson.
Sigurpáll Geir Sveinsson. Brynjar Gauti

Íslandsmótið í höggleik hefst á Hvaleyrarvelli Keilis á fimmtudagsmorguninn en þar munu 150 bestu karlkylfingar landsins reyna með sér og að auki 16 konur. Lítið er um afföll úr hópi bestu kylfinga landsins og má sem dæmi nefna að þeir sem keppt hafa erlendis í vor og sumar koma til landsins og verða með þannig að búast má við skemmtilegu og spennandi móti.

Sigmundur Einar Másson úr GKG á titil að verja en hann fagnaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli á Urriðavelli í fyrra og það sama má segja um Helenu Árnadóttur úr GR, sem fagnaði með Sigmundi Einari í fyrra. Hvaleyrarvöllur í Hafnarfirði skartar sínu fegursta um þessar mundir og er hann settur þannig upp að búast má við ágætu skori keppenda, karginn er ekki mjög þykkur og verði þurrt áfram ætti ekki að vera mjög þungt að slá úr honum. Blotni hins vegar eitthvað þyngist hann þó vissulega nokkuð. Flatirnar eru ágætlega hraðar og eiga eftir að verða enn hraðari er á líður.

Tveir af þeim sem urðu í tíu efstu sætunum í fyrra verða ekki með að þessu sinni, þeir Birgir Már Vigfússon, sem varð í þriðja sæti í fyrra, og Ófeigur Jóhann Guðjónsson, sem endaði í sjötta sæti. Eftir tvo daga verður keppendum fækkað og af þeim 72 sem komust áfram eftir tvo daga í fyrra verða 16 ekki með í ár.

Þrettán meistarar verða með

Tíu fyrrverandi Íslandsmeistarar verða með í karlaflokki að þessu sinni og þrír meistarar í kvennaflokki. Auk þess mæta til leiks fjölmargir kylfingar sem hafa komist nærri því að sigra á Íslandsmóti og staðið sig vel á mótaröðinni síðustu árin. Það má því búast við jöfnu og skemmtilegu móti í Hvaleyrinni. Úlfar Jónsson úr GKG, sem varð annar á mótinu í fyrra, er nú á heimavelli þó svo hann sé í öðrum klúbbi núna, sem og Björgvin Sigurbergsson og verður það að teljast þeim til tekna. Suðurnesjamaðurinn Örn Ævar Hjartarson, sem varð annar á eftir Björgvini á Hvaleyrinni 1999 eftir sögulegt umspil, er til alls líklegur og síðan eru fjölmargir ungir kylfingar sem eru tilbúnir í slaginn.

Nú eru liðin 40 ár síðan fyrst var leikið golf á Hvaleyrinni og því við hæfi að halda Íslandsmótið á afmælisári Keilis. Hvaleyrarvöllurinn er tvískiptur, eldri völlurinn, sem venjulega er síðari níu holur hans, liggur á gamalli bújörð en nýi völlurinn var lagður yfir úfið hraun undir lok síðustu aldar. Mikill munur er á fyrri níu holum vallarins og þeim síðari, en hvor um sig er krefjandi og skemmtilegur. Að þessu sinni verður honum snúið við, gamli völlurinn verður fyrri níu en síðan fara menn og leika hraunið.

Í hnotskurn
» Sigurður Pétursson, gamall Íslandsmeistari, verður með öðrum Íslandsmeistara í ráshóp, Björgvini Sigurbergssyni. Með þeim leikur sonur Sigurðar, Pétur Óskar.
» Einn ráshópurinn hjá körlunum er fullur af Íslandsmeisturum en þar leika Sigmundur Einar Másson, Úlfar Jónsson og Heiðar Davíð Bragason.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert