Mikil viðbrögð við ummælum Williams

Steve Williams og Adam Scott fara yfir málin.
Steve Williams og Adam Scott fara yfir málin. Reuters

Steve Williams, fyrrverandi kylfusveinn Tigers Woods, hefur heldur betur hrist upp í golfheiminum með ummælum sínum að loknu Brigdestone-boðsmótinu á PGA -mótaröðinni. Williams bar þar kylfur Ástralans Adams Scotts sem hefur látið lítið fyrir sér fara undanfarin ár. Nú brá svo við að Scott sigraði á mótinu með Williams á pokanum og það er kaldhæðni örlaganna að mótið var hið fyrsta sem Woods tók þátt í eftir þriggja mánaða fjarveru vegna meiðsla.

„Ég hef verið kylfusveinn í meira en 30 ár. Ég hef sigrað á 145 mótum og þetta er besti sigurinn á mínum ferli,“ sagði Williams við fjölmiðlamenn að mótinu loknu en honum var vel fagnað af áhorfendum á mótinu enda þótti mörgum Woods slíta blómlegu samstarfi þeirra með litlum glæsibrag.

Nú bregður svo við að Williams hefur að einhverju leyti misst þann stuðning sem hann hafði  í golfheiminum með þessum ummælum sem ekki er hægt að túlka öðruvísi en árás á Woods. Williams vann jú 13 risamót með Woods sem flestir álíta mun stærri viðburði en Brigdestone-mótið.

„Þetta er ánægjulegasti sigur sem ég hef átt hlut í, það er engin spurning. Áhorfendurnir voru ótrúlegir. Þetta er besta vika sem ég hef upplifað á mínum ferli sem kylfusveinn og ég meina það sem ég segi,“ bætti Williams við en afar sjaldgæft er að kylfusveinar tjái sig við fjölmiðla.

Twitter hefur logað vegna þessa og þar hafa margir kylfingar á mótaröðinni tjáð sig. Má  þar nefna Paul Azinger og Chris Woods og er það mál manna að Williams hafi þarna tekist að draga alla athyglina frá frammistöðu Adams Scotts.

Tiger Woods laðar enn að sér fjölda áhorfenda.
Tiger Woods laðar enn að sér fjölda áhorfenda. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert