Ólafur fremstur Íslendinganna

Ólafur Stefánsson er í fremstu röð í Þýskalandi, eins og …
Ólafur Stefánsson er í fremstu röð í Þýskalandi, eins og áður á Spáni. mbl.is/Brynjar Gauti

Ólafur Stefánsson hjá Rhein-Neckar Löwen er fremstur Íslendinganna í þýsku 1. deildinni í handknattleik það sem af er vetri, þegar litið er á markaskor og þætti sem tengjast því.

Ólafur er í 38. sæti markalistans í deildinni með 64 mörk í 16 leikjum, eða 4 mörk að meðaltali í leik. Hann er hinsvegar í stærra hlutverki í erfiðum útileikjum því hann hefur skorað 47 af þessum 64 mörkum á útivöllum og er 7. markahæsti leikmaður deildarinnar á útivelli.

Þá er Ólafur næstbesta vítaskytta deildarinnar. Hann hefur skorað úr 81,8 prósentum vítakasta sinna, eða úr 27 skotum af 33. Aðeins íslenski Daninn Hans Lindberg hjá Hamburg hefur gert betur. Lindberg er markahæsti leikmaður deildarinnar í heild með 109 mörk, ásamt Lars Kaufmann hjá Göppingen.

Þórir Ólafsson er næstmarkahæstur Íslendinganna í deildinni en hann er í 50. sætinu með 57 mörk fyrir N-Lübbecke. Þórir, sem er fyrirliði liðsins, er sérstaklega atkvæðamikill á heimavelli því þar hefur hann gert 42 af þessum 57 mörkum og er 12. markahæsti leikmaður deildarinnar á heimavelli.

Róbert Gunnarsson, sem er í 53. sæti markalistans með 56 mörk fyrir Gummersbach, er hinsvegar sérstaklega drjúgur á síðasta korteri leikjanna. Þar er hann í 18. sæti í deildinni í heild með 27 mörk á þessum síðasta fjórðungi. Róbert er fyrirliði Gummersbach.

Sverre Jakobsson hjá Grosswallstadt er síðan atkvæðamikill þegar kemur að varnarleiknum. Hann er í 12. sæti yfir þá sem eru með flest gul spjöld, 10 talsins, og líka í 12. sæti yfir þá sem eru með flesta brottrekstra. Sverre hefur verið rekinn 15 sinnum af velli í vetur.

Markaskor Íslendinganna í deildinni í vetur er sem hér segir. Fyrir framan nafn er sæti á markalistanum í heild, en fyrir aftan mörk/vítaköst. Leikjafjöldi er í sviga þar fyrir aftan:

38. Ólafur Stefánsson, RN Löwen, 64/27 (16)
50. Þórir Ólafsson, N-Lübbecke, 57/5 (13)
53. Róbert Gunnarsson, Gummersbach, 56/0 (16)
77. Gylfi Gylfason, Minden, 43/0 (16)
79. Guðjón Valur Sigurðsson, RN Löwen, 42/0 (16)
85. Heiðmar Felixson, N-Lübbecke, 38/0 (15)
97. Alexander Petersson, Flensburg, 35/0 (16)
102. Rúnar Kárason, Füsche Berlín, 33/0 (16)
106. Snorri Steinn Guðjónsson, RN Löwen, 32/2 (16)
128. Vignir Svavarsson, Lemgo, 25/0 (11)
133. Ingimundur Ingimundarson, Minden, 23/0 (16)
138. Hannes Jón Jónsson, Burgdorf, 22/3 (13)
145. Aron Pálmarsson, Kiel, 21/0 (15)
148. Sturla Ásgeirsson, Düsseldorf, 20/1 (16)
208. Logi Geirsson, Lemgo, 5/0 (4)
237. Sverre Jakobsson, Grosswallstadt, 1/0 (16)
Einar Hólmgeirsson hefur ekkert leikið með Grosswallstadt á tímabilinu vegna meiðsla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert