Eins marks sigur Akureyrar í Mosó

Sveinbjörn Pétursson markvörður Akureyrar var valinn í A-landsliðið í fyrsta …
Sveinbjörn Pétursson markvörður Akureyrar var valinn í A-landsliðið í fyrsta sinn í dag. mbl.is/Ómar

Akureyri er enn með fullt hús stiga í N1-deild karla í handknattleik eftir nauman sigur á nýliðum Aftureldingar í Mosfellsbæ, 25:24 í kvöld. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Markahæstur hjá Akureyri var Oddur Gretarsson með 8 mörk og Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 5. Sveinbjörn Pétursson varði 15 skot í markinu.

Hjá Aftureldingu fór Haukur Sörli Sigurvinsson mikinn á lokakaflanum og gerði samtals sjö mörk í leiknum. Aron Gylfason skoraði 5. Hafþór Einarsson fór hamförum gegn sínum gömlu félögum og varði 23 skot.

60. Afturelding fékk tækifæri til að jafna metin í lokin en Hilmar Stefánsson missti þá boltann úti í hægra horninu og Akureyri fékk boltann þegar 5 sekúndur voru eftir. Lokatölur því 25:24 Akureyri í vil.

58. Afturelding var að minnka muninn í 25:23 en það eru aðeins rúmar tvær mínútur eftir. Enn getur þó allt gerst.

52. Afturelding var að jafna metin í 22:22 svo það stefnir í spennandi lokamínútur.

46. Akureyringar hafa skorað fimm síðustu mörk leiksins og eru allt í einu komnir með þriggja marka forskot, 21:18. Afturelding var að taka leikhlé en liðið var að klúðra sínu öðru víti á skömmum tíma. Oddur er kominn með 7 mörk fyrir Akureyri en Aron Gylfason er markahæstur heimamanna með tvö mörk.

42. Þessi leikur er nokkuð sveiflukenndur og nú voru gestirnir að jafna metin í 18:18 með sjötta marki landsliðsmannsins Odds Gretarssonar.

35. Sannarlega óvænt tíðindi hér í Mosó. Afturelding er fjórum mörkum yfir gegn toppliðinu og það er gríðarlegur kraftur í heimamönnum. Staðan er 17:13 og þeir eru með boltann. Það vottar fyrir taugatitringi í andlitum gestanna.

30. Hálfleikur. Hafþór Einarsson markvörður Aftureldingar á einna stærstan þátt í því að heimamenn eru yfir eftir fyrri hálfleik, 12:11. Hann hefur varið heil 12 skot. Ásgeir Jónsson og Aron Gylfason hafa einnig farið mikinn í sókn Aftureldingar og skorað 4 mörk hvor. Þessi staða er sannarlega óvænt og sérstaklega vegna þess að Akureyri komst í 5:1.

Hjá Akureyri er Oddur Gretarsson markahæstur með 4 mörk.

24. Afturelding er nú tveimur mörkum yfir, 10:8, og gestirnir hafa tekið leikhlé. Ásgeir Jónsson er búinn að skora þrjú mörk fyrir heimamenn af línunni og Aron Gylfason hornamaður er einnig kominn með þrjú.

22. Hafþór Einarsson hefur reynst Aftureldingu drjúgur í vetur og hann var að verja sitt sjöunda skot, sem þar að auki var vítakast. Afturelding er yfir, 9:8, og liðið lýtur mun betur út en í upphafi leiksins. Heimir Örn Árnason er kominn aftur inná til að stjórna sóknarleik Akureyringa.

15. Heimamenn eru komnir betur í gang og búnir að minnka muninn í 6:5. Yngri og óreyndari leikmenn Akureyrar hafa fengið að spreyta sig í sókninni án árangurs.

8. Akureyringar byrjuðu leikinn mun betur og komust í 5:1. Sveinbjörn Pétursson hefur lítið þurft að hafa fyrir því að verja skotin fimm sem hann hefur varið. Skyttur Aftureldingar verða að finna sér betri færi.

0. Það vantar ekki lætin í íþróttahúsinu hér að Varmá frekar en fyrri daginn. Dyggir stuðningsmenn Aftureldingar eiga enn eftir að fagna heimasigri í N1-deildinni í vetur en vonast eftir að ná þeim áfanga í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert