Landsliðið fékk lögreglufylgd í Serbíu

Íslensku landsliðsmennirnir fyrir leikinn gegn Serbíu í Laugardalshöllinni.
Íslensku landsliðsmennirnir fyrir leikinn gegn Serbíu í Laugardalshöllinni. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Karlalandsliðið í handbolta skilaði sér á áfangastað í Nís í Serbíu í kvöld eftir um fjórtán tíma ferðalag frá Íslandi. Fyrir dyrum er leikur gegn Serbum í undankeppni EM 2016 sem fram fer á sunnudaginn. 

Landsliðshópurinn flaug árla morguns til London og hélt þaðan áleiðis til Serbíu. Flogið var til alþjóðaflugvallarins í Belgrad og þaðan tekin rúta til Nís sem mun vera þriðja fjölmennasta borg Serbíu. 

Rútuferðin tók vel á þriðja tíma en rútan fékk lögreglufylgd alla leið. Varla hefur það verið af öryggisástæðum heldur er líklegra að þar hafi Serbarnir viljað hraða för íslenska liðsins ef umferðin hefði verið þung. Leiðin er talsvert löng og þrír lögreglubílar skiptu með sér leiðinni. 

Í íslenska hópinn vantar eins og fram hefur komið Guðjón Val Sigurðsson og Alexander Petersson sem valdir voru í hópinn fyrir Serbíuleikina en glíma við meiðsli. Guðjón skoraði 12 mörk í fyrri leiknum sem Ísland vann 38:22 en Alexander missir af báðum leikjunum vegna nárameiðsla. Örvhenti hornamaðurinn Guðmundur Árni Ólafsson fór með til Serbíu og er þá fjórði örvhenti leikmaðurinn í hópnum ásamt þeim Arnóri Gunnarssyni, Ásgeir Erni Hallgrímssyni og Rúnari Kárasyni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert