Gryfjan sem Ísland spilar í (myndskeið)

Hala Cair-höllin í Nís er á margan hátt skemmtilegt íþróttamannvirki en þar mætir íslenska karlalandsliðið í handbolta liði Serbíu í undankeppni EM á morgun. Þrátt fyrir að höllin sé ekki mjög stór þá tekur hún engu að síður 4 þúsund manns í sæti. 

Að mestu leyti sitja áhorfendur yfir ofan völlinn og af þeim sökum kemur lýsingin gryfja upp í hugann. Áhorfendur í ríkjum gömlu Júgóslavíu eru þekktir fyrir að sýna mikla ástríðu á leikjum landsliða sinna og myndast oft á tíðum gríðarleg stemning á meðal þeirra á kappleikjum. 

Fjölmiðlafulltrúi serbneska handboltasambandsins tjáði mbl.is í dag að þar á bæ búist menn við því að höllin fari langt með að fyllast á morgun. Hann sagðist þó ekkert vita um mætinguna á leikinn en sagði að fyrirfram reiknuðu menn með því að stuðningsmenn Serba fari langt með að fylla höllina. 

Framkvæmdir við höllina hófust árið 1972 og var hún komin í fulla notkun árið 1974. Árið 2011 voru gerðar endurbætur á höllinni vegna EM í Serbíu árið 2012. Höllin er notuð í ýmislegt fleira en íþróttaviðburði eins og tónleikahald og þá geta fleiri komist inn í húsið. 

Höllina má sjá á meðfylgjandi myndskeiði sem mbl.is tók í dag. 

Arnór Gunnarsson, Stefán Rafn Sigurmannsson, Aron Pálmarsson, Snorri Steinn Guðjónsson …
Arnór Gunnarsson, Stefán Rafn Sigurmannsson, Aron Pálmarsson, Snorri Steinn Guðjónsson og Róbert Gunnarsson eru allir í íslenska liðinu sem leikur gegn Serbíu á morgun. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert