Þetta er eitthvað andlegt

„Þetta er góð spurning, en það gerðist mjög mikið," sagði Einar Hólmgeirsson, annar þjálfari ÍR, eftir að lið hans tapaði niður fimm marka forskoti á síðustu mínútunum gegn Aftureldingu í kvöld niður í eins marks tap, það sjöunda í röð hjá liðinu í Olís-deildinni í handknattleik.

ÍR-ingar virtust vera með öll tromp á hendi þegar skammt var til leiksloka en misstu þau úr höndum sér.

„Þetta var fjörugur leikur. Við fengum tækifæri til þess að gera út um leikinn þegar Bjarni komst í hraðaupphlaup en skoraði ekki. Í framhaldinu komu þrír óskiljanlegir dómar, það fór kannski ekki leikinn. Síðan hentum við boltanum hvað eftir annað út af.

Menn hættu að leika kerfið okkar. Stress kom upp og þá snerust vopnin í höndum okkar," sagði Einar sem telur ljóst að sálfræðilegir þættir hafi gert að verkum að lið hans glopraði góðri stöðu niður í tap. 

„Við lékum vel í 45 mínútur. Þetta er eitthvað andlegt sem við verðum að vinna í," sagði Einar en nú gefst tími til þess að vinna í þessum þáttum því tveggja vikna hlé verður nú á keppni í Olís-deild karla.

Nánar er rætt við Einar Hólmgeirsson á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert