Fannst við eiga að vinna leikinn

Sunna María Einarsdóttir.
Sunna María Einarsdóttir. mbl.is/Eva Björk

„Það var svekkjandi að sjá hana verja, mér fannst við eiga að vinna þetta,“ sagði Sunna María Einarsdóttir, leikmaður Gróttu, í samtali við mbl.is eftir dramatískt jafntefli liðsins við Hauka í toppslag Olís-deildar kvenna í handknattleik í dag, 21:21.

Markvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir sem er í láni hjá Haukum frá Gróttu varði þá á lokasekúndunni og tryggði Haukum stig og er Sunna svekkt að hafa ekki náð að vinna leikinn.

„Mér fannst við eiga fullt inni og finnst við eiga að vera betri. Það er svekkjandi að láta Ramune skora svona mikið á sig, sérstaklega í seinni hálfleik þar sem hún var mjög erfitt,“ sagði Sunna, en Ramune Pekarskyte var óstöðvandi hjá Haukum og skoraði ellefu mörk. Aftur á móti hafði hin portúgalska Maria Pereira hægt um sig.

„Við lögðum svolítið upp með að brjóta á henni eins og öllum. Hún og Ramune eru tvær af þeim bestu hjá þeim, en við náðum bara að halda annarri niðri,“ sagði Sunna, en hvernig gekk að halda einbeitingu á lokametrunum þegar dramatíkin var allsráðandi?

„Mér fannst ég ekki vera stressuð. Maður gleymir sér bara í augnablikinu og ætlar sér að skora. En þetta er svekkjandi, mér fannst við eiga að vinna leikinn.“

Tvö stig skilja að efstu fimm lið deildarinnar og tók Sunna undir að jafnteflið undirstriki það jafnræði sem er í deildinni.

„Það er alveg rétt. Það sést í undanförnum leikjum og í jafnteflinu hérna, ætli það sé ekki dagsformið sem skiptir miklu máli líka mundi ég segja. Það er skemmtilegt að hafa þetta bara jafnt en ekki eins og oft þegar er bara eitt lið. Það er gaman að hafa spennu í þessu,“ sagði Sunna María Einarsdóttir við mbl.is.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert