„Varaliðið“ vann nauman sigur

Ísland vann Portúgal 26:25 í seinni vináttulandsleik þjóðanna í handknattleik karla í Kaplakrika í kvöld.

Ísland hafði tapað fyrri leiknum við Portúgal í gær, þegar Aron Kristjánsson þjálfari stillti upp sínu sterkasta liði. Hann hvíldi marga lykilmenn í þessum seinni leik í kvöld.

Næst á dagskrá hjá íslenska landsliðinu eru vináttulandsleikir við Þýskaland ytra, og síðar í kvöld verður ljóst hvaða leikmenn Aron Kristjánsson þjálfari tekur með sér í þá ferð. Evrópumótið í Póllandi hefst svo með leik við Noreg föstudaginn 15. janúar.

Það var jafnræði með liðunum í Kaplakrika í kvöld fyrstu 15 mínútur leiksins, en eftir að staðan hafði verið 6:6 skoruðu Íslendingar fjögur mörk í röð, og nýttu sér klaufaskap í sóknarleik gestanna. Rúnar Kárason skoraði hvert markið á fætur öðru og alls fimm í fyrri hálfleiknum, en hann lék hann allan í hægri skyttustöðunni.

Arnór Atlason, sem var fyrirliði í kvöld, var leikstjórnandi og Tandri Már Konráðsson vinstri skytta fyrstu 20 mínúturnar eða svo. Þá komu þeir Róbert Aron Hostert og Ólafur Guðmundsson inná, og skoraði Ólafur tvö mörk fyrir hlé. Ísland náði mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 14:10.

Stefán Rafn Sigurmannsson og Guðmundur Árni Ólafsson léku í hornunum, og Kári Kristján Kristjánsson á línunni, í sóknarleik Íslands í fyrri hálfleik. Í vörninni myndu þeir Tandri og Guðmundur Hólmar Helgason svo öflugt par í miðri vörninni, sem ásamt framgöngu Rúnars lagði grunninn að góðri stöðu fyrir seinni hálfleikinn.

Ísland byrjaði seinni hálfleikinn einnig ágætlega og komst í 17:11, en missti svo bæði Guðmund og Tandra af velli í tvær mínútur, og gestirnir gengu á lagið. Mikið óðagot og agaleysi fór að einkenna leik íslenska liðsins, og smám saman tókst Portúgal að jafna metin og komast yfir, 22:21, þegar enn voru rúmar tíu mínútur til leiksloka. Munurinn varð svo aldrei meiri en 1-2 mörk en Ísland vann að lokum sigur, 26:25.

Aron keyrði áfram á svipuðum mannskap í seinni hálfleik og hann gerði í þeim fyrri. Stephen Nielsen kom þó inná í markið korteri fyrir leikslok, í sínum fyrsta landsleik fyrir Íslands hönd, eftir að hafa fengið ríkisborgararétt í síðasta mánuði. Arnór Þór GUnnarsson lék í hægra horninu og Bjarki Már Elísson fékk að spreyta sig í vinstra horninu síðustu 18 mínúturnar. Janus Daði, Arnar Freyr, Adam Haukur og Árni Steinn komu ekkert við sögu.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

Ísland 26:25 Portúgal opna loka
60. mín. Ísland tekur leikhlé
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert