Fer upp á slysó núna og þá er ég góður

„Mér líður mjög vel,“ sagði Guðmundur Hólmar Helgason, með myndarlegan skurð við annað augað eftir að hafa fengið þungt höfuðhögg í sigri Vals á Haukum í undanúrslitum Coca Cola-bikarsins í handbolta í kvöld.

„Ég er ekki að segja að það hafi verið eitthvað þægilegt að fá Heimi svona á sig en ég fer bara upp á slysó núna og læt sauma þetta saman, og þá er ég bara góður,“ sagði Guðmundur, en þeir Heimir Óli Heimisson skullu saman í fyrri hálfleik og þurftu báðir að fá aðhlynningu utan vallar, en léku svo með mikla vafninga um höfuðið í seinni hálfleik. Guðmundur segir aldrei hafa komið til greina að draga sig til hlés:

„Mér var ýtt fyrst og skell svona í jörðina, og missti andann aðeins, en ég hef fengið svona högg þar sem ég dett alveg út, og þetta var ekki þannig. Ég var alveg inni allan tímann. Maður hefði ekki tekið neina sénsa annars, enda séð of mörg dæmi þess að leikmenn hafi þurft að hætta út af svona höggum,“ sagði Guðmundur, ánægður með frammistöðu Valsmanna í dag:

„Þetta er í fyrsta sinn í örugglega síðustu 10 leikjum þar sem við spilum massagóða vörn á móti þeim í 60 mínútur. Við áttum líka mun fleiri góðar sóknir á móti þeim en við höfum átt í undanförnum leikjum. Þetta er eitthvað sem ég er búinn að vera að segja, og Óskar [Bjarni Óskarsson, þjálfari] líka, að við þurfum að spila vel, okkar leik, í 60 mínútur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert