„Alveg sama hvað gjaldkeranum finnst“

Hlynur Morthens.
Hlynur Morthens. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég bara veit ekki neitt,“ sagði Hlynur Morthens, markvörður bikarmeistara Vals í handknattleik, þegar mbl.is leitaði viðbragða hjá honum við mótherja liðsins í 16-liða úrslitum Áskorendabikarsins. Valur mætir liði Partizan 1949 frá Svartfjallalandi.

Sjá frétt mbl.is: Valsmenn fara til Svartfjallalands

„Fyrsta sem kemur í hugann er að þetta verða stórir og miklir durgar og miklar skyttur. Þetta verður gríðarlega erfitt og væntanlega erfitt ferðalag fram undan líka,“ sagði Hlynur og tók undir að það væri ef til vill það versta við þennan mótherja.

„Já, það er pottþétt eitthvað um tengiflug og rútuferðir og annað. Þetta verður eitthvert ævintýri. En það er bara tilhlökkun að kljást við þetta lið. Við erum náttúrulega með einn Króata hjá okkur sem veit kannski eitthvað um þetta lið. Hann verður spurður spjörunum úr.“

Meðal liða sem voru í pottinum voru tvö frá Lúxemborg og eitt frá Hollandi, svo Hlynur segir að þetta hafi alls ekki verið óskamótherji Valsmanna.

„Nei, maður var alveg að horfa til Hollands og Lúxemborgar og svoleiðis. En þetta er bara niðurstaðan og við tökum því,“ sagði Hlynur, en hann fylgdist með drættinum í Valsheimilinu þar sem gjaldkeri félagsins var meðal annars staddur og spurði blaðamaður hvort viðkomandi hafi eitthvað ókyrrst yfir komandi útgjöldum. 

„Mér er alveg sama hvað gjaldkeranum finnst um þetta,“ sagði Hlynur Morhens léttur í bragði við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert