Skin og skúrir í leikjunum við Makedóníu

Íslendingar hafa marga hildi háð við Makedóníumenn. Hér er Kári …
Íslendingar hafa marga hildi háð við Makedóníumenn. Hér er Kári Kristján Kristjánsson tekinn föstum tökum af Dejan Manaskov í leiknum á HM í janúar. AFP

Það skiptast á skin og skúrir hér í Skopje í Makedóníu í dag og þannig hefur það að vissu leyti verið í viðureignum Íslands og Makedóníu í gegnum árin, í handbolta karla. Ísland hefur þó unnið langflestar viðureignir þjóðanna.

Ísland og Makedónía mætast annað kvöld kl. 18 að íslenskum tíma, í undankeppni EM. Þau mætast svo aftur á sunnudag í Laugardalshöll, en um er að ræða tvo afar þýðingarmikla leiki í baráttunni um sæti á EM í Króatíu næsta vetur. Liðin eru í riðli með Tékklandi og Úkraínu og eru öll fjögur liðin jöfn að stigum eftir tvær umferðir af sex.

Höfðu yfirhöndina á HM þar til í lokin

Skammt er síðan Ísland og Makedónía mættust síðast en liðin áttust við í lokaumferð riðlakeppninnar á HM í Frakklandi í janúar. Þar varð niðurstaðan 27:27-jafntefli en með sigri hefði Ísland getað náð 3. sæti riðilsins af Makedóníu, og þar með mætt Noregi í 16-liða úrslitum en ekki heimsmeisturum Frakklands. Ísland lék vel stærstan hluta leiksins og komst í 23:18 í seinni hálfleik, en sóknarleikurinn var bitlaus í lokin.

Rúnar Kárason var markahæstur Íslands í leiknum á HM með 7 mörk og Bjarki Már Elísson átti frábæra innkomu í seinni hálfleik og skoraði 6 mörk. Kiril Lazarov var eins og svo oft áður markahæstur Makedóníu með 7 mörk en Goce Georgievski skoraði 6.

Þetta var eina jafnteflið sem Ísland og Makedónía hafa gert, í 13 viðureignum. Ísland hefur unnið tíu leikjanna en Makedónía tvo.

Sigur í Krikanum kom Íslandi í fyrsta sinn á EM

Fyrst mættust þjóðirnar í undankeppni EM 2000. Ísland komst þá í fyrsta sinn í lokakeppni EM, undir stjórn Þorbjörns Jenssonar, með 32:23-sigri í Kaplakrika og 32:29-tapi í Skopje. Síðan þá hefur Ísland alltaf komist á EM og þangað er stefnan enn sett nú, fyrir EM í Króatíu á næsta ári.

Ólafur Stefánsson, Róbert Sighvatsson, Júlíus, Rúnar Sigtryggsson, Sigurður Bjarnason, Gústaf …
Ólafur Stefánsson, Róbert Sighvatsson, Júlíus, Rúnar Sigtryggsson, Sigurður Bjarnason, Gústaf Bjarnason og Bjarki Sigurðsson fagna í Skopje, í september 1999, eftir að Ísland vann sér sæti á EM í fyrsta sinn. mbl.is/Sverrir

Ísland vann tvo sigra á Makedóníu í undankeppni HM 2001 og aftur fyrir HM 2003.

Förin á HM 2009 stöðvuð

Í undankeppni HM 2009 komu Makedóníumenn hins vegar í veg fyrir að Ísland færi á stórmót. Makedónía vann 34:26-sigur í Skopje og Ísland 30:24 í Laugardalshöll. Ísland missti þar með af stórmóti í fyrsta sinn frá árinu 1999, en í kjölfar þessara vonbrigða fór liðið á Ólympíuleikana í Peking og vann til silfurverðlauna.

Í undankeppni EM 2010 vann Ísland báðar viðureignir liðanna og kom sér á mótið þar sem Ísland vann bronsverðlaun.

Síðustu þrjár rimmur þjóðanna hafa allar verið á stórmótum. Ísland vann Makedóníu 23:19 á HM 2013, og svo 29:27 í milliriðli á EM 2014 þegar Ísland endaði í 5. sæti mótsins.

Kiril Lazarov er stórstjarna í handboltaheiminum og hefur verið aðalmaður …
Kiril Lazarov er stórstjarna í handboltaheiminum og hefur verið aðalmaður makedónska landsliðsins um árabil. Hér er Gunnar Steinn Jónsson til varnar gegn honum á EM 2014 í Danmörku. Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert