„Erum að gera þetta fyrir þjóðina“

Björgvin Páll Gústavsson í leiknum í Skopje á fimmtudagskvöld.
Björgvin Páll Gústavsson í leiknum í Skopje á fimmtudagskvöld. Ljósmynd/Robert Spasovski

Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik, var léttur í bragði þegar mbl.is tók hann tali fyrir landsliðsæfingu í Laugardalshöll í dag. Ísland mætir Makedóníu í undankeppni Evrópumótsins annað kvöld og ætlar að hefna fyrir fimm marka tap í Skopje á fimmtudag.

„Já þegar andinn skemmist, þá hætti ég. Það er alveg klárt. Þetta er það besta sem maður gerir, að koma saman með landsliðinu og að hitta strákana. En það er enn skemmtilegra þegar maður vinnur og það er okkar verkefni núna,“ sagði Björgvin við mbl.is.

„Við fengum alltof mikinn tíma til að vera súrir eftir tapið, því við fórum beint í ferðalag heim um nóttina og þetta var erfitt og þungt. En við höfum notað tímann vel í að næra hug og líkama og nú erum við klárir í bátana,“ sagði Björgvin.

Hann segir að landsliðsmennirnir vilji sýna sín réttu andlit fyrir framan íslenska áhorfendur sem vonandi fjölmenna í stúkuna annað kvöld.

„Þetta er okkar höll hérna. Við fengum engar frábærar móttökur í Makedóníu, hvort sem var á hóteli eða höllinni, svo við ætlum að sýna þeim hvernig er að mæta til Íslands. Það er alltaf ákveðin stemning sem myndast hér sem gefur manni gæsahúð. Hún fleytir okkur mjög langt,“ sagði Björgvin.

Ísland er með tvö stig en Makedónía, Tékkland og Úkraína öll með fjögur stig í riðlinum.

„Við lítum á alla leiki sem úrslitaleiki, þetta er stutt keppni og nú eru bara þrír leikir eftir. Hvert tap gerir hlutina ógeðslega erfiða, en við erum að gera þetta fyrir okkur og þjóðina. Stórmót er undir og við viljum alltaf vera að spila þegar myrkrið skellur á í janúar, en þá þurfum við líka að vinna þessa leiki,“ sagði Björgvin Páll við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert