Færeyjar skrefi nær fyrsta heimsmeistaramótinu

Elias Ellefsen á Skipagötu skoraði tíu mörk fyrir Færeyinga í …
Elias Ellefsen á Skipagötu skoraði tíu mörk fyrir Færeyinga í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Færeyska karlalandsliðið í handknattleik vann í kvöld öruggan sigur á Norður-Makedóníu, 34:27, í fyrri leik liðanna í umspili um laust sæti á HM 2025 í Þórshöfn í Færeyjum.

Liðin mætast öðru sinni í Norður-Makedóníu næstkomandi en ljóst er að veganesti Færeyja er gott er liðið freistar þess að komast á sitt fyrsta heimsmeistaramót í sögunni.

Sigurvegari einvígisins fer beint á HM 2025 í Króatíu, Noregi og Danmörku.

Yfirburðir allan tímann

Færeyjar voru með tögl og hagldir allan leikinn og náðu til að mynda snemma fimm marka forskoti, 7:2.

Mestur varð munurinn sex mörk í fyrri hálfleik, 17:11, en staðan í hálfleik var 18:14.

Yfirburðirnir minnkuðu ekki í síðari hálfleik þar sem Færeyingar náðu mest átta marka forskoti og það í þrígang.

Norður-Makedónar löguðu aðeins stöðuna og niðurstaðan að lokum sjö marka sigur Færeyja.

Elias skoraði tíu mörk

Elias Ellefsen á Skipagötu fór á kostum í liði Færeyja er hann skoraði tíu mörk.

Óli Mittún og Hákun West av Teigum bættu við sex mörkum hvor og Leivur Mortensen og Vilhelm Poulsen skoruðu fimm mörk hvor.

Markahæstur hjá Norður-Makedóníu var Filip Kuzmanovski með átta mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert