Hvað var Luis Suárez að hugsa?

Hvað var Luis Suárez að hugsa? Fyrir sex dögum sýndi hann snilli sína á knattspyrnuvellinum er hann skoraði tvö glæsileg mörk í sigri Úrúgvæ á Englandi á HM í fótbolta, sem fer nú fram í Brasilíu, eftir að hafa verið frá vegna meiðsla. Í gær komst hann aftur í heimsfréttirnar fyrir – að því er virtist – að bíta ítalskan varnarmann.

Fjölmiðlar um allan heim hafa fjallað mikið um atvikið sem átti sér stað um 10 mínútum fyrir leikslok í landsleik Úrúgvæ og Ítalíu sem fór fram í gær. Gárungir voru fljótir að fara af stað og segja að framherjinn væri nú enn á milli tannanna á fólki, sóknarleikur Úrúgvæ í leiknum hefði verið bitlaus fram að þessu augnabliki, ítalski varnarmaðurinn hefði gert Suárez kjaftstopp og svo mætti lengi halda áfram.

Mögulega dæmdur í langt keppnisbann

Þá hefur umræðan verið síst minni á samfélagsmiðlum á borð við Facebook og Twitter, en nefna má fótboltastjörnur á borð við Rio Ferdinand og Michael Owen sem hafa lýst furðu sinni á atvikinu. Suárez hefur í tvígang áður gerst sekur um að bíta andstæðing á knattspyrnuvellinum en að þessu sinni var fórnarlambið Giorgio Chiellini, varnarmaður ítalska landsliðsins. 

Chiellini kvartaði sáran og reyndi að sýna dómaranum meint bitfar en án árangurs. Suárez heldur því hins vegar fram að þeir hafi einfaldlega rekist harkalega saman og gerir lítið úr atvikinu í samtali við úrúgvæska fjölmiðla.

Verði Suárez fundinn sekur um bitið þá á hann yfir höfði sér langt keppnisbann og þar af leiðandi ljóst að hann kemur ekki meira við sögu á heimsmeistaramótinu. Rætt er um að hann geti mögulega verið bannaður frá knattspyrnuiðkun í tvö ár. Knatt­spyrnu­sam­band Úrúg­væ og Su­árez hafa frest til klukk­an 20 að ís­lensk­um tíma til að svara fyr­ir hegðun framherjans í leiknum.

En það er alltaf einhver sem græðir og að þessu sinni er það 23 ára gamall Norðmaður, Thomas Syversen, sem græddi sem samsvarar um 100.000 íslenskum krónum eftir að hafa veðjað á það að Suárez myndi bíta einhvern leikmann Ítalíu í leik liðanna á HM í gær. 

Reis eins og fuglinn Fönix

Menn hafa vitaskuld furðað sig á þessari hegðun Suárez því fáir efast um hæfileika hans á knattspyrnusviðinu líkt og áðurnefnd frammistaða hans gegn Englandi ber vott um auk þess sem hann átti frábært tímabil að baki með félagsliði sínu, enska úrvalsdeildarliðinu Liverpool.

Liverpool hafnaði í öðru sæti deildarinnar – en átti um tíma raunverulegan möguleika á því að að krækja í bikarinn eftirsótta – og er það ekki síst frammistöðu Suárez að þakka. Hann varð markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar á nýliðnu tímabili þegar hann skoraði 31 mark í 33 leikjum með Liverpool og var auk þess valinn besti leikmaður mótsins.

Segja má að hann hafi risið upp úr úr öskustónni eins og fuglinn Fönix en hann missti af byrjun mótsins því hann var dæmdur í 10 leikja bann fyrir að bíta varnarmanninn Branislav Ivanovic er Liverpool tók á móti Chelsea á Anfield 21. apríl 2013.

Undirritaður var staddur á vellinum er kappleikurinn fór fram og var einn af mörgum – ásamt dómaranum – sem misstu af atvikinu. Það tóku hins vegar allir eftir því þegar Suárez jafnaði metin í uppbótartíma og ærðust stuðningsmenn Liverpool af gleði. Leikar enduðu 2:2 en myndavélarnar á vellinum sáu allt sem gerðist, einnig atvikið á milli Suárez og Ivanovic, og var sá fyrrnefndi dæmdur í bann.

Þá er vert að geta þess að Suárez fékk 7 leikja bann árið 2010 fyrir að bíta andstæðing er hann lék með Ajax í hollensku deildinni.

Thom­as Fawcett, sem er einn þekktasti íþróttasálfræðingur Bretlands, sagði eftir að Suárez hafði bitið Ivanovic að hann væri líklegur til að endurtaka leikinn, því svona lagað væri í skapgerð viðkomandi einstaklings.

„Mannætan frá Ajax“

Suárez er 27 ára gamall en hann fæddist 24. janúar árið 1987 í borginni Salto í Úrúgvæ. Hann er fjórði í röð sjö bræðra og þegar Suárez var sjö ára gamall flutti hann með fjölskyldu sinni til Montevideo, sem er höfuðborg Úrúgvæ, og á götum borgarinnar þróaði hann knattspyrnuhæfileika sína. Foreldrar hans skildu er hann var níu ára, að því er fram kemur á umfjöllun um kappann á vef Wikipediu.

Þegar hann var 14 ára gamall gekk hann til liðs við ungmennalið úrúgvæska liðsins Nacional og þegar hann var 16 ára gamall komst hann í vandræði fyrir að skalla dómara sem hafði gefið honum rautt spjald í leik.

Þegar þjálfari liðsins komst síðar að því að Suárez hefði verið að drekka áfengi og skemmta sér sagði þjálfarinn að Suárez myndi ekki eiga neina framtíð á knattspyrnu nema hann færi að sýna ábyrgð og taka fótboltann alvarlega.

Hann virðist hafa tekið seinni kostinn, því í maí 2005, þegar Suárez var 18 ára gamall, þreytti hann frumraun sína með aðalliði Nacional. Í september sama ár skoraði hann sitt fyrsta mark fyrir liðið. Alls skoraði hann 10 mörk í 27 leikjum fyrir liðið sem endaði sem meistari tímabilið 2005-2006.

Útsendarar hollenska knattspyrnuliðsins Groningen komu auga á Suárez er þeir voru staddir í landinu til að fylgjast með öðrum úrúgvæskum leikmanni. Þeir heilluðust af hæfileikum hans og í framhaldinu lá leið Suárez til Hollands. Eftir að hafa leikið eitt tímabil með Groningen lá leið hans til Ajax sem keypti hann fyrir 7,5 milljónir evra og með liðinu var hann tæp fjögur tímabil. Alls skoraði hann 111 mörk fyrir Ajax í 159 leikjum sem er met. En hann gerðist jafnframt sekur um að bíta andstæðing þegar Ajax atti kappi við PSV Eindhoven. Eftir atvikið var Suárez kallaður „mannætan frá Ajax“.

Þunn lína á milli snilligáfu og brjálæðis

Þaðan lá leiðin til Liverpool sem keypti kappann fyrir 22,8 milljónir punda og þar hefur hann svo sannarlega slegið í gegn. Hann hefur aftur á móti einnig komið sér í vandræði á Englandi, sem fyrr segir, en auk þess að bíta Ivanovic var Suárez dæmdur í átta leikja bann fyrir kynþáttaníð gagnvart Patrice Evra, leikmanni Manchester United, í leik sem fór fram 15. október 2011.

Það er þunn lína á milli þess að vera snillingur eða brjálæðingur – hetja eða skúrkur. Hér að neðan má sjá þegar Suárez bítur þrjá andstæðinga sína; fyrst í leik með Ajax 2010, svo með Liverpool þremur árum síðar og loks í leiknum með landsliði Úrúgvæ í gær.

Margir velta fyrir sér hvað framherjinn knái hafi verið að hugsa – og kannski frekar hvort hann hafi verið að hugsa yfir höfuð. Svarið liggur hjá Suárez sjálfum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert