Snorri: Menn fara í naflaskoðun, það er á hreinu

Úr leik Bjarnarins og Víkinga í kvöld. Engu líkara en …
Úr leik Bjarnarins og Víkinga í kvöld. Engu líkara en naflaskoðunin sé hafin. mbl.is/Ómar

„Ég held að hausinn hafi ekki verið alveg með,  menn hafi ekki mætt nógu vel stemmdir í leikinn og það vantaði að samstilla liðið svo þetta var ekki góður dagur,“  sagði Snorri Sigurðsson aðstoðarþjálfari Bjarnarins eftir 8:1 tap fyrir SA-Víkingum í Egilshöll í kvöld þegar spilað var í 9. umferð íshokkídeildar karla.

Björninn hefði unnið báðar viðureignir liðanna í vetur en aðstoðarþjálfarinn sagði það ekki hafi skipt mestu máli.     „Ég held að hjá okkur strákum hafi mestu skipt að þeir voru ekki með hausinn í leiknum en það er ekki neinum einum um að kenna því allt liðið var þannig.  Taktíkin hjá okkur var að nýta að við værum með fleiri menn á leikskýrslu en menn spiluðu ekki eins og þeir áttu að spila en Víkingar eru með sterkt og þétt lið, spila líka gott íshokkí svo það er ekkert út á það að setja.“  

„Menn fara í naflaskoðun eftir þennan leik. það er á hreinu.  Þeir fara ekkert að setja hausinn í milli fótanna og fara að gráta.  Það þarf bara að rífa sig upp og taka sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert