Haukar Íslandsmeistarar eftir sigur á KR

Monika Knight úr Haukum sækir að körfu KR-inga.
Monika Knight úr Haukum sækir að körfu KR-inga. mbl.is/Ómar

Haukar eru Íslandsmeistarar í körfuknattleik kvenna eftir sigur á KR 69:64 í hreinum úrslitaleik á Ásvöllum. Haukar endurheimtu því titilinn sem þær unnu árið 2007. Í samvinnu við KR TV var hægt að fylgjast með beinni útsendingu frá leiknum hér á mbl.is, auk hefðbundinnar textalýsingar.

Stigahæst hjá Haukum var Slavica Dimovska sem valin var maður leiksins en hún skoraði 27 stig. Monika Knight kom næst með 15 stig.

Margrét Kara Sturludóttir var atkvæðamest hjá KR með 18 stig en Hildur Sigurðardóttir gerði 16. 

40. Tvær þriggja stiga tilraunir KR geiguðu og titilinn er Hauka sem sigra 69:64 eftir að hafa sett niður eitt vítaskot.

40. Staðan er 68:64. Dimovska hitti báðum vítunum. KR er með boltann og taka leikhlé.

40. Staðan er 66:64 og Haukar fara á vítalínuna þegar 18 sekúndur eru eftir. KR vann boltann strax eftir innkast Hauka og Sigrún minnkaði í tvö stig.

40. Staðan er 66:62 fyrir Hauka sem eru með boltann og tæpar 30 sekúndur eftir. Hildur Sig var að skora fyrir KR.

39. Staðan er 66:59. Dimovska var að setja niður þriggja stiga körfu og hefur væntanlega tryggt Haukum titilinn.

39. Staðan er 63:57 fyrir Hauka. Rétt tæplega 2 mín eftir og Haukar með boltann. Kristún Sigurjónsdóttir hjá Haukum var að fá sína fimmtu villu og leikur ekki meira í þessum leik.

38. Staðan er 61:55 fyrir Hauka sem eru með boltann og rétt rúmlega tvær mínútur eftir af leiknum. 

37. Staðan er 59:53 fyrir Hauka. Monika Knight að setja niður mjög mikilvæga þriggja stiga körfu fyrir Hauka.

35. Staðan er 56:53 fyrir Hauka sem hafa snúið leiknum sér í vil á ný.

34. Staðan er 52:53 fyrir KR. Margrét Kara setur annan þrist og KR er komið yfir.

31.  Margrét Kara Sturludóttir setur þriggja stiga skot niður fyrir KR og minnkar muninn í 4 stig. Allt getur gerst ennþá.

30. Staðan er 48:41 fyrir Hauka eftir þriðja leikhluta. Hafnfirðingar náðu að slíta sig frá KR-ingum undir lok þriðja leikhluta og komust í 48:39. Hildur Sigurðardóttir leikstjórnandi KR er kominn með fjórar villur og þarf að gæta sín í síðasta leikhlutanum.

29. Staðan er 44:39 fyrir Hauka. Baráttuhundurinn hjá KR, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, er kominn með fjórar villur sem er alvarlegt mál fyrir KR. Guðrún er kominn með 6 stig og 8 fráköst.

26. Staðan er 40:37 fyrir Hauka. Mikil spenna framundan og kæmi ekki á óvart ef framlengja þyrfti leikinn eftir venjulegan leiktíma.

24. Staðan er 35:35. Monika Knight var að setja niður þriggja stiga skot fyirr Hauka og spurning hvort hún sé komin í gang.

22. Staðan er 33:32 fyrir KR en síðari hálfleikurinn byrjar eins og sá fyrri endaði, á mikilli baráttu. Spennan er greinilega mikil hjá leikmönnum. 

20. Staðan er jöfn 30:30 í hálfleik. Leikurinn hefur einkennst af mikilli baráttu í fyrri hálfleik rétt eins og hinir fjórir leikir liðanna. Jafnræði hefur verið með liðunum lengst af en þó náðu Hafnfirðingar átta stiga forskoti um tíma en KR saxaði það fljótt niður. Þessi lið eru greinilega mjög svipuð að getu enda um oddaleik að ræða. Því virðist spurningin fyrst og fremst vera hvort liðið verður sterkara á taugum í síðari hálfleik. 

18. Staðan er 26:23 fyrir Hauka. Allt útlit fyrir mjög spennandi leik í síðari hálfleik. 

15. Staðan er 22:20 fyrir Hauka. KR-konur eru ekki af baki dottnar og hafa skorað sex stig í röð. Yngvi þjálfari Hauka bregður á það ráð að taka leikhlé.

13. Staðan er 22:16 fyrir Hauka. Kristrún Sigurjónsdóttir lykilmaður hjá Haukum var að stimpla sig inn í leikinn með þriggja stiga körfu.

12. Staðan er 19:14 fyrir Hauka sem byrja af krafti í öðrum leikhluta.

10. Staðan er 14:12 fyrir Hauka eftir fyrsta leikhluta. Slavica Dimovska 0hefur farið fyrir sóknarleik Hauka eins og svo oft áður. Hún er með 7 stig og Monika Knight er með 5 stig.

8. Staðan er 11:10 fyrir Hauka. Sigrún Ámundardóttir hefur byrjað mjög vel hjá KR og er kominn með 8 stig og 4 fráköst.

6. Staðan er 6:5 fyrir KR. Leikurinn ber öll einkenni úrslitaleikja; barátta, taugaveiklun og mikið um mistök.

3. Staðan er 5:2 fyrir Hauka. Slavica Dimovska braut ísinn með þriggja stiga körfu fyrir Hauka.

0. Leikmenn eru á fullu að hita upp og áhorfendur eru byrjaðir að tínast í húsið. Tveir af allra sterkustu dómurum landsins munu sjá um dómgæsluna: Sigmundur Már Herbertsson og Kristinn Óskarsson. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert