Tindastóll stöðvaði Stjörnuna

Helgi Rafn Viggósson skorar fyrir Tindastól gegn KR. Hann var …
Helgi Rafn Viggósson skorar fyrir Tindastól gegn KR. Hann var öflugur gegn Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Hjalti

Tindastóll vann óvæntan sigur á Stjörnunni, 95:93, í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í Ásgarði í Garðabæ í kvöld. Þetta var fyrsti ósigur Stjörnunnar sem hafði unnið fimm fyrstu leiki sína í deildinni, en aðeins annar sigur Tindastóls sem nú er kominn með 4 stig.

Leikurinn var hnífjafn í fyrri hálfleik og liðin voru yfir til skiptis. Staðan var 20:19, Stjörnunni í hag, eftir fyrsta leikhluta en 38:35 fyrir Tindastól í hálfleik. Jovan Zdravevski skoraði 12 stig fyrir Stjörnuna í fyrri hálfleik og Justin Shouse 8 en Svavar Birgisson og Helgi Viggósson voru með 11 stig hvor fyrir Tindastól.

Tindastóll var síðan yfir allan síðari hálfleikinn og náði nokkrum sinnum tíu stiga forskoti. Staðan var 68:60, Sauðkrækingum í hag, eftir þriðja leikhluta og þeir voru yfir, 89:79, þegar 2,20 mínútur voru til leiksloka.

Stjarnan minnkaði hinsvegar muninn í 92:90 þegar hálf mínúta var eftir. Svavar Birgisson svaraði fyrir Tindastól úr vítaskoti, 93:90, þegar 20 sekúndur voru eftir. Helgi Rafn Viggósson bætti við vítaskoti, 94:90, þegar 8 sekúndur voru eftir.

Justin Shouse svaraði því með 3ja stiga körfu fyrir Stjörnuna, 94:93, þremur sekúndum fyrir leikslok. Garðbæingar brutu strax á Amani Bin Daanish sem nýtti annað tveggja vítaskota sinna, 95:93. Stjarnan tók leikhlé en skot frá Shouse geigaði og annað frá Birgi Péturssyni í kjölfarið.

Amani Bin Daanish skoraði 26 stig fyrir Tindastól, Michael Giovacchini 23 og þeir Svavar Birgisson og Helgi Rafn Viggósson 20 stig hvor.

Justin Shouse skoraði 38 stig fyrir Stjörnuna og Jovan Zdravevski 21.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert