Grindavík skellti toppliði KR 84:67

Landsliðsmaðurinn Páll Axel Vilbergsson er helsta skytta Grindvíkinga.
Landsliðsmaðurinn Páll Axel Vilbergsson er helsta skytta Grindvíkinga. mbl.is/Friðrik

Leikur Grindavíkur og KR í Iceland Express deild karla í körfuknattleik hófst klukkan 19:15 í Grindavík. Grindavík skellti toppliðinu 84:67 en heimamenn höfðu frumkvæðið nánast allan leikinn. EKki á hverjum degi sem lið heldur KR undir 70 skoruðum stigum. Var þetta fyrsti leikur Pavels Ermolinski í búningi KR. Fylgst er með gangi mála hér á mbl.is.

Stigahæstir:

Grindavík: Þórarinn Ólafsson 19, Darrel Flake 15, Ómar Örn Sævarsson 15.

KR: Brynjar Björnsson 16, Semaj Inge 13.

40. mín: LEIK LOKIÐ. Grindavík sigraði 84:67. Lokamínúturnar voru ekki spennandi en KR-ingar reyndu að hleypa leiknum upp með pressuvörn sem Grindvíkingar leystu vel. 

37. mín: Staðan er 76:62 fyrir Grindavík og Páll Kolbeinsson þjálfari KR tekur leikhlé. Hann er hundóánægður með frammistöðu sinna manna enda er sjaldgæft að meistararnir séu með 62 stig skoruð þegar rúmar 3 mínútur eru eftir af leik.

34. mín: Staðan er 67:58 fyrir Grindavík. Pavel Ermolinski er kominn út af með 5 villur í sínum fyrsta leik með KR, en þar af eru tvær sóknarvillur.  Páll Axel Vilbergsson er að finna sig vel í síðari hálfleik og er kominn með 13 stig og 7 fráköst.

30. mín: Staðan er 57:56 fyrir Grindavík að þriðja leikhluta loknum. Allt útlit fyrir spennandi lokamínútur á milli þessara liða sem léku til úrslita síðastliðið vor. Ómar Örn er búinn að skora 15 stig og taka 12 fráköst fyrir Grindavík.

25. mín: Staðan er 49:44 fyrir Grindavíkinga sem eru aftur komnir með frumkvæðið. Vörnin er nokkuð góð hjá báðum liðum í upphafi seinni hálfleiks en sóknin er betri hjá Grindvíkingum.

20. mín: Staðan er 41:42 fyrir KR. Þrátt fyrir að vera með gott forskot framan af leik þá tókst Grindvíkingum ekki að fara með forskot inn í hléið. KR-ingar átu upp forskotið með því að skora 8 stig í röð í öðrum leikhluta og Tommy Johnson kom þeim síðan yfir í fyrsta skipti í leiknum, með þriggja stiga körfu þegar 6 sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik. Darrel Flake er stigahæstur hjá Grindavík með 10 stig og Brynjar Björnsson hefur skorað annað eins fyrir KR. 

15. mín: Staðan er 35:26 fyrir Grindavík. Suðurnesjamenn halda Íslandsmeisturunum frá sér enn sem komið er og freista þess að fara með gott forskot inn í búningsklefa í hálfleik. 

10. mín: Staðan er 28:16 fyrir Grindvíkinga að fyrsta leikhluta loknum. KR-ingar eru í miklum vandræðum í vörninni, sérstaklega gegn Darrel Flake sem hefur skorað 8 stig og gefið 2 stoðsendingar. Ómar Örn Sævarsson hefur einnig verið drjúgur og er kominn með 6 stig.

5. mín: Staðan er 16:10 fyrir Grindavík. KR-ingar eru að koma sér betur inn í leikinn. Ólafur Ólafsson er í byrjunarliðinu hjá Grindavík og hefur byrjað mjög vel, er kominn með 5 stig.

3. mín: Staðan er 9:2 fyrir Grindavík. Heimamenn byrja leikinn með miklum látum og hafa strax náð 7 stiga forskoti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert