Blikar fallnir eftir tap gegn Fjölni

Christopher Smith er lykilmaður hjá Fjölni.
Christopher Smith er lykilmaður hjá Fjölni. mbl.is/Kristinn

Úrslitin í fallbaráttu úrvalsdeildar karla í körfuknattleik réðust í kvöld. Breiðablik er fallið eftir ósigur gegn Fjölni á heimavelli, 81:93. Stjarnan vann Hamar í Hveragerði og Snæfell sigraði Njarðvíkinga í Njarðvík.

20.52 Snæfell vann stórsigur í Njarðvík, 96:70, og Stjarnan  vann Hamar í Hveragerði, 96:73.

20.51 Leik Breiðabliks og Fjölnis er lokið með sigri gestanna úr Grafarvogi 81:93.  Það er því ljóst að lið Breiðabliks er fallið niður í 1. deild á meðan Fjölnir á enn möguleika á að tryggja sér síðasta sætið inn í úrslitakeppnina.  Það má segja að Fjölnir hafi lagt grunninn að sigrinum í 2. leikhluta þar sem þeir skoruðu 18 stig í röð án þess að heimamenn náðu að svara fyrir sig.  Blikar náðu aldrei að komast almennilega í takt við leikinn eftir það og því fór sem fór.  Stigahæstir í liði Breiðabliks voru J. Schmidt með 29 stig og J. Caldwell með 14 stig.  Í liði Fjölnis var C. Smith með 25 stig og þeir Magni Hafsteinsson og Tómas Tómasson með 17 stig hvor. 

20.27 Fjölnismenn eru í góðri stöðu gegn Blilkum fyrir lokafjórðunginn, staðan eftir 3. leikhluta er 52:65 fyrir Fjölni.  Góður kafli Fjölnis í 2. leikhluta virðist hafa gefið þeim byr undir vængi og hafa þeir bætt við forskotið.  Það getur þó enn allt gerst þar sem Breiðablik þarf nauðsynlega á sigri að halda rétt eins og Fjölnir.  stigahæstur í liði Fjölnis er C. Smith með 20 stig og í liði Breiðabliks er J. Schmidt stigahæstur með 18 stig.

20.18 Það er farið að stefna í þrjá útisigra í kvöld. Fjölnir er yfir gegn Breiðabliki í Kópavogi, 63:49, Stjarnan er yfir gegn Hamri í Hveragerði, 60:46, og Stjarnan er yfir í Njarðvík, 66:50. Alls staðar er skammt eftir af þriðja leikhluta.

19.56 Þetta er kvöld gestaliðanna í körfuboltanum. Stjarnan er yfir í hálfleik gegn Hamri í Hveragerði, 41:28, og í Njarðvík er Snæfell með góða forystu, 57:39.

19.55 Fyrri hálfleik var að ljúka í Smáranum þar sem Fjölnismenn hafa heldur betur snúið leiknum sér í vil,  staðan er 35:42.  Í stöðunni 29:20 Blikum í vil settu Fjölnismenn í lás og náðu 18-0 kafla þar sem Breiðablik skoraði ekki í tæpar 8 mínútur.  Stigahæstir í liði Fjölnis eru Christopher Smith með 12 stig og Magni Hafsteinsson með 10.  Í liði Breiðabliks er Jeremy Caldwell stigahæstur með 14 stig.

19.39 Fjölnismenn virðast komnir yfir mesta stressið og eru búnir að jafna leikinn 29:29.  Gríðarleg stemming er í Smáranum og framhaldið lofar góðu.

19.33 Stjarnan er yfir eftir fyrsta leikhluta gegn Hamri í Hveragerði, 22:11. Í Njarðvík er annar leikhluti nýhafinn og þar er Snæfell með forystu, 24:17.

19.32 Fyrsta leikhluta í leik Breiðabliks og Fjölnis var að ljúka þar sem heimamenn eru yfir,  25:16  .  Gríðarlega mikið er undir hér í kvöld þar sem tap hjá Breiðablik þýðir einfaldlega fall.  Fjölnismenn mega heldur ekki við ósigri þar sem þeir myndu þá hafa sætaskipti við Breiðablik og sitja þá í fallsæti fyrir síðustu umferð deildarinnar.  Leikurinn lofar góðu og munum við fylgjast með framvindu mála hér á mbl.is.

19.22 Stjarnan skoraði fyrstu 10 stigin í Hveragerði og er yfir gegn Hamri eftir 5 mínútna leik, 10:4. Breiðablik er yfir gegn Fjölni 14:7 og Snæfell er yfir í Njarðvík, 12:7.

19.15 Flautað til leiks í leikjum kvöldsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert