Fleiri áhorfendur en íbúafjöldi Stykkishólms?

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfelsl.
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfelsl. mbl.is/Ómar

„Það er mikil spenna og eftirvænting í bænum fyrir leikinn. Það gæti gerst að það yrðu fleiri áhorfendur á þessum leik en búa í bænum sjálfum,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells sem getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla í fyrsta sinn í sögu félagsins í kvöld.

Snæfell mætir Keflavík á heimavelli og hafa forsvarsmenn Snæfells gert ráð fyrir að taka á móti allt að 1.200 áhorfendum, en það búa um 1.100 í Stykkishólmi.

Leikurinn hefst kl. 19.15 og verður fylgst með gangi mála á mbl.is

„Við tókum góða æfingu í gær og liðsfund. Það eru allir heilir en vissulega eru menn með ýmis smámeiðsli sem gleymast þegar leikurinn byrjar. Við þurfum að koma þessari spennu og eftirvæntingu sem býr í okkur í leikinn sjálfan,“ bætti Ingi við.

Bandaríski leikmaðurinn Jeb Ivey kom til Snæfells „rétt“ áður en annar úrslitaleikurinn hófst í Stykkishólmi á dögunum en hann var fenginn til þess að fylla skarðið sem Sean Burton skildi eftir sig. Burton er meiddur á ökkla en hann er enn í Stykkishólmi og hefur hann aðstoðað Ivey á undanförnum dögum að komast betur inn í leikkerfi Snæfellsliðsins.

„Ivey er að komast betur inn í hlutina hjá okkur. Vissulega hefur sóknarleikurinn verið stirður á köflum, við vissum að það myndi gerast. Hann er mun betri skotmaður en hann hefur sýnt í fyrstu tveimur leikjunum með okkur,“  sagði Ingi Þór í samtali við mbl.is í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert