Sveinbjörn: Öllum boðið í afmælispartý ef vel fer

„Verkefnið verður nú ekki stærra, að freista þess að vinna sjálfa Íslandsmeistarana,“ sagði Sveinbjörn Claessen, fyrirliði ÍR, fyrir bikarúrslitaleikinn við Grindavík í körfuknattleik í Laugardalshöll á laugardaginn.

Sveinbjörn var í liði ÍR síðast þegar það varð bikarmeistari árið 2007 en hann er sá eini sem enn er í liðinu nú sjö árum síðar.

„Þetta var mín stærsta stund á ferlinum og þeirra sem spiluðu þann leik. Ég er aftur á móti sá eini sem er eftir og það er bara mitt hlutverk sem eldri leikmaður að miðla þeirri reynslu, hvetja og peppa aðra til að leggja sig fram til að upplifa þessa tilfinningu,“ sagði Sveinbjörn sem verður 28 ára gamall á morgun og vill auðvitað halda upp á það með bikarmeistaratitli.

„Það er öllum boðið í afmælispartý ef vel fer, og þegar vel fer,“ sagði Sveinbjörn léttur í bragði. Nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndbandi.

Miðasala er í fullum gangi á midi.is og hægt að nálgast miða með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert