Pétur var frábær á lokakaflanum

Helgi Rafn Viggósson var öflugur í liði Tindastóls og er …
Helgi Rafn Viggósson var öflugur í liði Tindastóls og er hér á vítalínunni í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Hjalti Árnason

Tindastóll sigraði Þór frá Þorlákshöfn, 97:85, í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik á Sauðárkróki í kvöld.

Leikurinn var jafn og spennandi lengi vel. Staðan var 63:62 undir lok þriðja leikhluta en þá gerði Tindastóll tólf stig í röð og náði góðu forskoti sem Þórsarar réðu ekki við. Pétur Rúnar Birgisson var þar fremstur í flokki en hann skoraði 8 fyrstu stig fjórða leikhluta og lék frábærlega á lokasprettinum.

Myron Dempsey skoraði 26 stig fyrir Tindastól og tók 16 fráköst en hann kom lítið við sögu eftir miðjan þriðja leikhluta. Pétur Rúnar skoraði 19 stig og Ingvi Rafn Ingvarsson 18 og Helgi Rafn Viggósson tók 13 fráköst.

Darrin Govens skkoraði 29 stig fyrir Þór, Tómas Heiðar Tómasson 19 og Nemanja Sovic 12.

Liðin mætast aftur í Þorlákshöfn á mánudagskvöldið en þrjá sigra þarf til að komast í undanúrslitin. Þriðji leikurinn  verður á Sauðárkróki næsta föstudagskvöld.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

40. Leik lokið. Staðan er 97:85. Leiktíminn rennur út. Tindastóll vinnur fyrsta leik.

39. Staðan er 91:77. Þó hlutirnir geti breyst hratt í körfubolta eru úrslitin ráðin.

39. Staðan er 89:76 eftir fallega körfu frá Ingva Rafni og vítaskot í kjölfarið. Þetta er líklega komið hjá heimamönnum á Sauðárkróki.

38. Staðan er 86:74 eftir körfu frá Myron Dempsey. Staða Stólanna orðin ansi vænleg.

37. Staðan er 82:72 og nú er Myron Dempsey kominn aftur inná hjá Stólunum. Hafði verið í hvíld síðan um miðjan þriðja leikhluta. Viðar Ágústsson hjá Tindastóli kominn með 5 villur.

36. Staðan er 82:70. Darrell Flake kom Stólunum ellefu stigum yfir en Emil svaraði strax. Svo kom Pétur Rúnar með sinn þriðja þrist í fjórða leikhluta. Drengurinn virðist ætla að gera útslagið í kvöld.

35. Staðan 77:68. Mikilvæg karfa Helga Rafns Viggóssonar sem er kominn með 8 stig og 12 fráköst fyrir Stólana en líka 4 villur.

34. Staðan er 75:67. Halldór Garðar með fimm stig í röð fyrir Þórsara. Villuvandræði hjá Stólum. Helgi Rafn Viggósson og Viðar Ágústsson báðir með 4 villur. Dempsey kemur enn ekki við sögu.

33. Staðan er 75:62. Pétur Rúnar Birgisson með annan þrist fyrir Tindastól. Staðan er Pétur 8, Þór 0 í fjórða leikhluta. Magnaður þessi strákur.

32. Aftur er Pétur Rúnar aðalmaður. Glæsilegur þristur og 72:62.

31. Staðan er 69:62. Pétur Rúnar Birgisson með fyrstu körfu fyrir Tindastól. Dempsey er enn utan vallar.

30. Þriðja leikhluta lokið. Staðan er 67:62. Enginn munur og allt galopið ennþá. Spurning hvort Myron Dempsey hafi meiðst eitthvað þegar hann fór útaf um miðjan þriðja leikhlutann. Það yrði vont fyrir Stólana. Kominn með 24 stig og 15 fráköst. Govens 25 stig fyrir Þór.

29. Staðan er 67:62. Gífurleg barátta. Ingvi Rafn kominn með 13 stig fyrir Stólana. Dempsey hefur verið utan vallar góða stund.

28. Staðan er 63:62. Þórsarar eiga alltaf svar þegar Stólarnir auka muninn. Darrin Govens er kominn með 25 stig fyrir Þór og Tómas Heiðar 16.

26. Staðan er 60:54. Þórsarar ráða ekkert við Dempsey.

25. Staðan er 56:54. Góð rispa hjá Govens upp völlinn.

24. Staðan er 55:50. Dempsey heldur sínu striki. Kominn í 20 stigin.

21. Staðan er 51:47. Seinni hálfleikur byrjar líflega.

20. Hálfleikur og staðan er 45:44. Glæsileg 3ja stiga karfa frá Darrin Govens í blálokin og mann minnkar muninn fyrir Þór í eitt stig. Sveiflukenndur hálfleikur, liðin hafa tekið rispur til skiptis og þetta er galopið fyrir seinni hálfleikinn. Myron Dempsey er kominn með 15 stig og 11 fráköst fyrir Stólana og Ingvi Rafn Ingvarsson er með 6 stig. Vantar framlag frá fleirum. Darrin Govens er með 17 stig fyrir Þór og Tómas Heiðar Tómasson 11.

20. Staðan er 42:39, tvö víti frá Govens sem er þá kominn með 11 stig, og önnur tvö frá Tómasi Heiðari Tómassyni sem er kominn með 10 stig fyrir Þór.

18. Staðan er 40:33 - glæsileg 3ja stiga karfa hjá Viðari Ágústssyni fyrir Stólana.

18. Staðan er 37:31 - Myron Dempsey með þriggja stiga skot. Kominn með 13 stig og 9 fráköst.

16. Staðan er 34:31. Þetta sveiflast fram og til baka. Viðar Ágústsson kemur Tindastóli þremur yfir.

15. Staðan er 28:31. Þórsarar í fínum gír og heldur betur búnir að snúa leiknum við. Tómas Heiðar Tómasson kemur þeim yfir með 3ja stiga skoti og Emil Karel bætir um betur með tveimur stigum í kjölfarið. Flottur kafli Þórsara og það á meðan Darrin Govens var utan vallar.

14. Staðan er 28:21. Hraðinn ekki eins mikill og í fyrsta leikhluta.

12. Staðan 26:19. Heldur dofnað yfir heimamönnum. Govens búinn að skella niður þristi fyrir Þór.

10. Fyrsta leikhluta lokið, staðan er 26:16. Stólarnir eru sterkari til þessa, kraftur í þeim. Dempsey í aðalhlutverki.

9. Staðan er 24:15. Dempsey bætir enn við og er kominn með 10 stig og 5 fráköst fyrir Tindastól.

8. Staðan er 20:15. Darrin Govens var að setja niður 3ja stiga skot fyrir Þór en Dempsey svaraði að bragði fyrir Tindastól.

6. Staðan er 16:10. Nemanja Sovic var að setja niður tvö vítaskot fyrir Þór.

5. Staðan er 14:8. Myron Dempsey með 4 stig og 3 fráköst hjá Tindastóli.

4. Ingvi Rafn Ingvarsson er heitur í byrjun. Búinn að setja niður tvö 3ja stiga skot fyrir Stólana sem eru yfir, 10:5.

3. Staðan er 7:5. Tindastóll gerði fyrstu fimm stigin.

1. Leikurinn er hafinn.

Hjá Tindastóli byrja inná Ingvi Rafn Ingvarsson, Myron Dempsey, Pétur Rúnar Birgisson, Darrel Lewis og Helgi Rafn Viggósson.

Hjá Þór byrja inná Baldur Þór Ragnarsson, Darrin Govens, Nemanja Sovic, Tómas Heiðar  Tómasson og Grétar Ingi Erlendsson.

Tindastóll hafnaði í öðru sæti Dominos-deildarinnar í vetur með 34 stig en Þórsarar enduðu í sjöunda sætinu með 22 stig.

Tindastóll vann fyrri leik liðanna á Sauðárkróki í október, 110:90, en Þór vann seinni leikinn í Þorlákshöfn í janúar, 97:95.

Pétur Rúnar Birgisson var frábær í fjórða leikhluta.
Pétur Rúnar Birgisson var frábær í fjórða leikhluta. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert