Golden State Warriors meistarar

Leikmenn Golden State fagna með bikarinn glæsilega eftir leikinn.
Leikmenn Golden State fagna með bikarinn glæsilega eftir leikinn. AFP

Golden State Warriors urðu í nótt meistarar þegar þeir báru sigurorð af Cleveland Cavaliers í bandaríska körfuboltanum í sjötta úrslitaleik liðanna sem fram fór í Cleveland. Golden State hafði forustu mestallan leikinn og vann að lokum með 105 stigum gegn 97 og viðureignina með fjórum sigrum gegn tveimur.

Með sigrinum gerðu Stephen Curry og félagar vonir Cleveland um að verða meistarar í fyrsta skipti að engu. Golden State varð síðast meistari fyrir 40 árum, árið 1975. Golden State átti frábært tímabil undir forustu Steve Kerr á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari og var með besta vinningshlutfall allra liða í deildinni í vetur, vann 67 leiki af 82, og var nánast ósigrandi á heimavelli. Kerr varð fimm sinnum meistari sem leikmaður, Þrisvar með Chicago ásamt Michael Jordan og í tvígang með San Antonio Spurs. Nú hefur hann bætt við titli sem þjálfari. Kerr er fyrsti þjálfarinn til að vinna meistartitil á sínu fyrsta tímabili siðan Pat Riley vann það afrek með Los Angeles Lakers árið 1982.

Í úrslitakeppninni sigraði liðið New Orleans Pelicans í fyrstu umferð, Memphis Grizzlies í annarri og Houston Rockets í úrslitum vesturdeilarinnar. Stephen Curry hefur verið besti leikmaður liðsins, en hann er studdur mörgum hæfileikaríkum leikmönnum.

Engin spurning var þegar úrslitaviðureignin við Cleveland hófst að Golden State var með hæfileikaríkara lið. Golden State vann fyrstu viðureignina, en Cleveland náði að knýja fram sigur í næstu tveimur leikjum og ná forustu í viðureigninni. Heiðurinn af sigrunum átti LeBron James, sem sýndi yfirburði sína. Lið hans varð hins vegar fyrir miklum skakkaföllum í úrslitakeppninni, leikmaðurinn Kevin Love fór úr axlarlið í fyrstu umferð úrslitakeppninnar gegn Boston og í fyrsta leiknum gegn Golden State braut Kyrie Irving hnéskel. Hefði James tekist að leiða lið sitt til sigurs hefði það verið ótrúlegur árangur. James átti að venju stórbrotinn leik í nótt og munaði aðeins einni stoðsendingu að hann næði þrefaldri tvennu, skoraði 32 stig, tók 18 fráköst og var með 9 stoðsendingar.

Stephen Curry var besti leikmaður Golden State í nótt ásamt Andre Igoudala og skoruðu þeir 25 stig hvor. Einnig munaði um Draymond Green, sem var með þrefalda tvennu, skoraði 16 stig, náði 11 fráköstum og gaf 10 stoðsendingar. Igoudala, sem byrjaði á bekknum allt tímabilið þar til í úrslitakeppnina var komið, var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar.

Titill Golden State er sá fjórði í sögu liðsins.

Andre Iguodala og Stephen Curry voru bestu leikmenn Golden State …
Andre Iguodala og Stephen Curry voru bestu leikmenn Golden State þegar liðið varð meistari NBA-deildarinnar í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert