„Mundi spila lappalaus í þessu móti“

Jón Arnór Stefánsson, íþróttamaður ársins, er lykilmaður í íslenska landsliðinu í körfuknattleik sem tekur þátt í Evrópumeistaramótinu í byrjun næsta mánaðar. Ísland tók þátt í æfingamóti í Eistlandi í síðustu viku þar sem Jón spilaði ekkert vegna meiðsla, en tekur þátt í öðru slíku í Póllandi sem hefst í dag og þar ætlar Jón að vera með.

„Ég gat ekki beitt mér í Eistlandi en hefði getað spilað örugglega síðustu tvo leikina. Ég pressaði á að spila en sem betur fer höfðu aðrir vit fyrir manni. Það er samt lítill tími til að koma sér í stand, svo ég þarf á þessum leikjum í Póllandi að halda. En ég verð klár í Berlín,“ sagði Jón Arnór þegar mbl.is tók hann tali í vikunni.

Jón spilaði í vetur með liði Unicaja Málaga á Spáni, en framlengir ekki samning sinn þar. Hann verður því án félags á EM, en mörgum er í fersku minni þegar hann gaf ekki kost á sér í landsleiki síðasta haust, þá einnig án félags, þar sem hann var ótryggður fyrir meiðslum. Staðan er hins vegar önnur núna.

„Ég hef ekkert hugsað út í það, eins og ég hef sagt þá mundi ég spila lappalaus í þessu móti og það hefur ekkert breyst. Ég hef verið að fá einhver tilboð sem ég hef gefið frá mér, en það hafa verið jákvæðar þreifingar. Ég er með fókusinn á þessu verkefni en er ekkert að pæla í öðru, það gefst lítill tími til þess,“ sagði Jón Arnór meðal annars við mbl.is.

Nánar er rætt við Jón Arnór í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert