KR-ingar í úrslitin

Grindvíkingurinn Þorleifur Ólafsson með boltann í leiknum í kvöld.
Grindvíkingurinn Þorleifur Ólafsson með boltann í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson.

KR-ingar lögðu Grindvíkinga að velli í Grindavík í undanúrslitum liðanna í Powerade-bikar karla í körfuknattleik í kvöld. Lokatölur urðu 81:70 og KR mætir Þór frá Þorlákshöfn í úrslitaleik keppninnar.

Grindvíkingar voru yfir lengi vel en KR náði þó forystu fyrir hlé, 38:36. Þegar staðan var 51:48, Grindvíkingum í hag, í byrjun fjórða leikhluta urðu algjör umskipti. KR skoraði 17 stig í röð og var ekki í vandræðum eftir það.

Ægir Þór Steinarsson skoraði 20 stig fyrir KR og Michael Craion 18 en Jón Axel Guðmundsson gerði 25 stig fyrir Grindvíkinga.

Fylgst var með gangi mála í leiknum hér á mbl.is.

Grindavík - KR, staðan er 70:81, lokatölur.

40. Leik lokið. KR hóf leikhlutann af krafti og skoruðu fyrstu 9 stigin og voru allt í einu komnir í 11 stiga forskot þegar aðeins 7 mínútur voru til loka leiks. Við þetta efldust KR liðið á hverri mínútu og fóru að spila líkt og þeir gera best. Á meðan voru Grindvíkingar komnir í tómt basl og sóknarleikur þeirra í besta falli tilviljanakenndur. Þegar um 3 míntúru voru til loka fékk Chuck Garcia erlendur leikmaður þeirra sína 5 villu og því enn þrengdi að þeim í sínum leik. Þrátt fyrir hetjulega baráttu heimamanna á lokasprettinum þá náðu þeir ekki að brúa bilið og KR eru á leið í úrslit í bikarkeppninni 2016. 

40. KR-ingar sigra!

33. KR-ingar að sigla vel fram úr heimamönnum. Breyttu stöðunni úr 51:48 í 51:65.

30. Fátt markvert gerðist í þriðja leikhluta nema hvað að liðin í raun skiptast á að skora og leikurinn er í járnum. Hvorugt liðið hefur sýnt nokkra tilburði á því að stinga af í leiknum og því staðan þannig að aðeins tvö stig skilja liðin fyrir loka átökin. Tilþrif leikhlutans komu þegar lokaflautið gall og Björn Kristjánsson setti niður langan og huggulegan þrist sem gerir það að verkum að KR leiðir enn í leiknum. 

28. Grindvíkingar komnir yfir á ný. Staðan 51:48.

20. Hálfleikur. Staðan er 38:36 fyrir KR. KR skoraði fyrstu 8 stig leikhlutans og þar með komnir yfir á fyrstu tveimur mínútum leikhlutans, svo fljótt var það nú að gerast. Leikurinn var eftir það í járnum og liðin hafa skipst á því að skora.  Grindvíkingar hafa verið duglegir að ráðast á körfuna hjá KR og hafa hrifsað til sín 15 sóknarfráköst.  Ofan í það hefur KR tapað boltanum 9 sinnum og í raun ótrúlegt að Grindavík sé ekki að leiða í leiknum þegar rýnt er í þessa tölfræði.  En það er skotnýting Grindvíkinga sem hefur upp á vantað og þar liggur leikurinn fyrir þá.  KR leiða með tveimur stigum í hálfleik og allt stefnir í naglbít af leik hér í seinni hálfleik. 

18. KR-ingar hafa heldur betur vaknað til lífsins í 2. leikhluta. Koma sér yfir í 36:33.

10. 1. leikhluta lokið. Það eru heimamenn sem hefja leikinn betur og saga þessa fyrsta leikhluta er barátta heimamanna og þeir eru virkilega að leyfa KR að finna til tevatnsins. Craion er í fyrsta skipti að fá á sig nokkuð stærri leikmann í nýja erlenda leikmanni Grindvíkinga Chuck Garcia og svona í fyrstu virðist hinn óstöðvandi Craion vera í bölvuðum vandræðum.  Stigaskor KR sýnir að þeir eru í vandræðum með sóknarleik sinn og hefur Ægir Þór Steinarsson skoraði 8 stig af þeim 12 sem liðið hefur skorað.  Það er hinsvegar nóg eftir og stefnir í skemmtilegan leik. 

9. Heimamenn byrja vel og eru komnir í 17:12.

3. Mikið skorað á fyrstu mínútunum. Staðan strax orðin 9:8.

1. Leikurinn er hafinn í Grindavík!

0. Styttist í að leikar hefjst! 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert