Þórsarar unnu í Keflavík

Tobin Carberry með boltann gegn Keflavík í kvöld.
Tobin Carberry með boltann gegn Keflavík í kvöld. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Þór Þorlákshöfn lagði Keflavík suður með sjó þegar liðin mættust í 13. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik. Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn en Þórsarar höfðu betur,  85:82.

Keflvíkingar voru skrefi framar í upphafi leiks, en Þórsarar bitu vel frá sér í öðrum hluta og skoruðu þá 25 stig gegn 15. Staðan í hálfleik var 44:42 gestunum í vil.

Eftir hlé var mikið jafnræði, en Þórsarar voru með forskot fyrir fjórða og síðasta hlutann 67:59. Keflvíkingar reyndu hvað þeir gátu í fjórða leikhluta og náðu forystu um tíma, en það dugði ekki til og Þórsarar fóru með sigur af hólmi 85:82.

Þór er nú með 14 stig en Keflavík er með 12 en bæði lið eru í þéttum pakka um miðja deild.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Amin Khalil Stevens í liði Keflavíkur með boltann í kvöld.
Amin Khalil Stevens í liði Keflavíkur með boltann í kvöld. Ljósmynd/Skúli B Sigurðsson

40. Leik lokið, lokatölur 82:85. Þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta fékk Keflavík hressilega og nauðsynlega vítamínsprautu þegar Amin Stevens tróð með látum yfir Ragnar Örn Bragason í liði Þórs. Heimamenn fengu smá byr í seglin með þessum tilþrifum og náðu síðan forystunni 76:75 eftir að Magnús Már Traustason hafði tekið myndarlega sjö stiga rispu. Þórsarar voru ekki af baki dottnir og leikurinn fór í svokallað vítahlaup á lokasekúndunum þar sem gestirnir úr Þorlákshöfn höfðu betur. Keflvíkingar gátu reyndar jafnað í tvígang á síðustu 10 sekúndum leiksins en tvö þriggja stiga skot frá Guðmundi Jónssyni og Amin Stevens vildu ekki niður og Þór fagnaði því 85:82 sigri.

30. Staðan er 59:67. Guðmundur Jónsson opnaði þriðja leikhluta með þrist fyrir Keflavík og kom heimamönnum í 45:44 en getirnir úr Þorlákshöfn voru fljótir að ná forystunni aftur. Heimamenn fundu Stevens lítið í teignum og kom það gestunum vel sem komust í 57:50 en máttu þola högg þegar Ólafur Helgi Jónsson fékk sína fjórðu villu í liði Þórs þegar mínúta var eftir af fjórða leikhluta. Ólafur Helgi hafði þann starfa í leiknum að gæta Stevens og hafði farist það vel úr hendi í öðrum og þriðja leikhluta. Aftur lokaði Þór leikhluta með flautuþrist og nú var það Emil Karel Einarsson og kom hann Þór í 67:59 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

20. Hálfleikur, staðan er 42:44. Amin Stevens var tekinn fastari tökum af Þórsvörninni í öðrum leikhluta og það reyndist gestunum vel enda gerði Stevens aðeins 4 stig í leikhlutanum. Keflvíkingar voru þó áfram við stýrið framan af leikhlutanum en snöggtum fyrir leikhlé áttu gestirnir úr Þorlákshöfn góða rispu. Góðum spretti Þórsara lauk þegar fjórar sekúndur voru eftir af öðrum leikhluta þegar Maciej Baginski sleppti flautuþrist á loft sem rataði í netið eftir nokkuð hringl og Þór er því yfir 44:42 í háflleik. Þór vann annan leikhluta 25:15. Amin Stevens var stigahæstur hjá Keflavík í leikhléi með 16 stig og 8 fráköst en Maciej Baginski var með 17 stig í liði Þórsara en hann gerði 13 stig í öðrum leikhluta.

10. Fyrsta leikhluta lokið, staðan er 27:19. Amin Stevens lét fjarveru Grétars Inga svíða í ranni gestanna og gerði 10 af 15 fyrstu stigum leiksins fyrir heimamenn. Þórsarar létu ekki stinga sig af og komust í 19:18 en þá lokaði Keflavík fyrsta leikhluta með 10:0 spretti og er yfir 27:19 eftir fyrstu 10 mínúturnar þar sem Stevens var með 12 stig og 5 fráköst í liði Keflavíkur en Ragnar Örn Bragason með 8 stig í liði Þórsara.

1. Leikurinn er hafinn.

Magnús Már Traustason sækir að körfu Þórs í kvöld.
Magnús Már Traustason sækir að körfu Þórs í kvöld. Ljósmynd/Skúli B Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert