Logi Geirsson: „Ekkert hræddur við að kýla á þetta“

Logi Geirsson lætur vaða á pólska markið í leiknum í …
Logi Geirsson lætur vaða á pólska markið í leiknum í gær. Logi skoraði fjögur mörk í leiknum úr fjórum skottilraunum. mbl.is/Brynjar Gauti

Íslenski landsliðsmaðurinn Logi Geirsson átti fína innkomu í leiknum gegn Pólverjum í 8-liða úrslitum handknattleikskeppninnar á Ólympíuleikunum í Peking í gær. Þar tryggðu Íslendingar sér sæti í undanúrslitum í annað sinn í sögunni með 32:30-sigri.

Staðan í hálfleik var 19:14 fyrir Ísland og skoraði Logi fjögur mörk úr sjö skottilraunum. Logi vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar hann var spurður að því hvort hann væri hinn nýi „örbylgjuofn“ íslenska landsliðsins en svo virðist sem hann sé alltaf „heitur“ þegar hann kemur inn af varamannabekknum.

„Örbylgjuofn hvað?“ svaraði Logi í leikslok og vissi ekki alveg hvernig hann ætti að svara. „Ég er frekar með kaldan „haus“. Ég kem bara inn og spila eins og ég er vanur að gera.

Mitt hlutverk er að hjálpa liðinu þegar ég kem inná. Minn styrkleiki felst í því að ég sé ekkert nema markið þegar ég er í færi til þess að skjóta.

Ég er ekkert hræddur við að kýla á þetta og þruma á markið. Þegar sjálfstraustið er í lagi þá fer þetta allt saman inn í markið,“ sagði Logi en hann telur að íslenska liðið hafi vaxið smátt og smátt meðan á keppninni hefur staðið.

„Núna er þetta virkilega orðið gaman. Liðið er að eflast og ég sé bara möguleika fyrir okkur í framhaldinu. Við sjáum fyrir okkur möguleikana og ef við hefðum tapað gegn Pólverjum hefði framhaldið verið frekar dapurt.“

Ítarlegt viðtal er við Loga í 24stundum í dag.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert