Guðni kom, sá og sigraði

Guðni Valur Guðnason, kringlukastari.
Guðni Valur Guðnason, kringlukastari. mbl.is/iben

Guðni Valur Guðnason kom, sá og sigraði í kringlukasti á Smáþjóðaleikunum í dag. Guðni er aðeins tvítugur og byrjaði að æfa kringlukast á síðasta ári en hefur tekið ótrúlegum framförum undir stjórn Péturs Guðmundsson, Íslandsmethafa í kúluvarpi, en Pétur er þjálfari hjá ÍR. Guðni kastaði kringlunni í dag 56,40 metra og bætti sinn fyrr árangur um 0,8 metra.

Andreas Xristou frá Kýpur varð annar með 53,51 metra og Sven Forster frá Lúxemborg hafnaði í þriðja sæti með 49,11 metra.

„Ég rann aðeins til í hringnum í fyrsta kasti," sagði Guðni við mbl.is. „Ég stefndi á sigur. Ég kom til þess að vinna og tókst það," sagði Guðni ennfremur sem segist eiga mikið inni enda rétt nýlega byrjaður að æfa frjálsíþróttir eftir að hafa verið í tíu ár í golfi.

„Í sumar stefni ég á 60 metrana og á næsta ári ætla ég að ná lágmarki inn á Ólympíuleikana í Ríó. Það þýðir ekkert að æfa íþróttir nema til þess að vera bestur," sagði Guðni Valur Guðnason, Smáþjóðaleikameistarinn óvænti í kringlukasti karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert