Nafni Olíufélagsins breytt í Ker

Aðalfundur Olíufélagsins samþykkti í dag að breyta nafni félagsins í Ker. Ker er eignarhaldsfélag sem annast mun rekstur fasteigna og fjárfestingar í atvinnurekstri af ýmsu tagi. Aðalfundurinn í dag var því sá síðasti í nafni Olíufélagsins og verður félagið skráð hjá Verðbréfaþingi Íslands sem Ker hf.

Í tilkynningu frá félaginu segir, að þessi ákvörðun sé liður í skipulagsbreytingu í kjölfar ákvörðunar um að greina skýrt á milli annars vegar aðalstarfsemi félagsins, þ.e. olíuviðskipta, og eignaumsýslu hins vegar. Í ársbyrjun 2002 tók nýstofnað félag, Olíufélagið ehf., við olíuviðskiptunum og nú liggur fyrir að Ker annist eignarhald fyrirtækja, fjárfestingar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi félagsins og fasteignir. Segir í tilkynningunni að markmið nýja skipulagsins sé að gera reksturinn skýrari, markvissari og hagkvæmari en áður, til hagsbóta fyrir bæði viðskiptavini og eigendur félagsins. Forstjóri Kers er Geir Magnússon. Forstjóri Olíufélagsins er Hjörleifur Jakobsson. Aðalfundur kaus nýja stjórn Kers. Aðalstjórn skipa: Kristján Loftsson, Gísli Jónatansson, Margeir Daníelsson, Ólafur Ólafsson og Þórður Már Jóhannesson. Varastjórn skipa Þórólfur Gíslason, Guðrún Lárusdóttir og Magnús Kristinsson. Hagnaður Olíufélagsins hf. og dótturfélaga þess eftir skatta var 378 milljónir króna 2001 en var 429 milljónir króna árið þar á undan. Á aðalfundinum kom fram í máli Kristjáns Loftssonar stjórnarformanns og Geirs Magnússonar forstjóra að afkoman hefði í heildina tekið verið viðunandi í ljósi erfiðs rekstrarumhverfis vegna þróunar gengismála og efnahagssamdráttar. Ávöxtun eigin fjár var 5,9%, sem er lækkun um 1,4% frá fyrra ári. Geir sagði arðsemina ekki vera í samræmi við rekstraráætlanir félagsins, enda hefði þar verið miðað við að vikmörk gengis yrðu varin við 127 en í mars 2001 hefði verið fallið frá þeirri stefnu. Afleiðingin væri gengistap upp á 1.059 milljónir króna og í þessu ljósi yrði að telja niðurstöðu ársins viðunandi. Forstjórinn kvað rekstraráætlanir ársins 2002 gera ráð fyrir batnandi afkomu. Mestu skipti fyrir rekstur félagsins að það tækist að halda stöðugleika í gengi, draga úr verðbólgu, og lækka vexti.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK