Verkefnisstjóri samfélagsmála Alcoa á Norðurlandi

Kristján Halldórsson
Kristján Halldórsson

Kristján Þ. Halldórsson, rekstrarverkfræðingur, hefur verið ráðinn verkefnisstjóri samfélagsmála fyrir Alcoa á Norðurlandi. Hann mun starfa að undirbúningsvinnu vegna hugsanlegs álvers á Norðurlandi í framhaldi af samkomulagi ríkisstjórnarinnar, Húsavíkurbæjar og Alcoa um að kanna nánar hagkvæmni þess að reisa 250 þúsund tonna álver á Bakka við Húsavík.

Kristján var formaður samstarfsnefndar um sameiningu sjö sveitarfélaga á Norðausturlandi og leiddi síðan sameiningu fjögurra þeirra. Kristján sat í sveitarstjórn Öxarfjarðarhrepps síðastliðin átta ár og hefur sinnt margvíslegum nefndarstörfum fyrir hreppinn, samkvæmt fréttatilkynningu.

Starf Kristjáns felst fyrst og fremst í því að miðla upplýsingum um Alcoa og hugsanlegt álver á Húsavík til hagsmunaaðila á Norðausturlandi, svo sem sveitarfélaga, stofnana félagasamtaka og íbúa. Hann mun einnig miðla upplýsingum til Alcoa um það sem helst er í deiglunni á svæðinu og snertir verkefnið á einhvern hátt.

„Ljóst er að samfélagsleg áhrif hugsanlegs álvers á Bakka við Húsavík verða mikil. Um 300 ný störf verða til í álverinu sjálfu og samkvæmt skýrslu, sem var unnin um samfélagsleg áhrif álvers við Húsavík, verða afleidd störf milli 900 og 1050 á landsvísu, þar af 600 til 800 í Þingeyjarsýslu. Á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu verða þau 150 til 200. Verði af framkvæmdum má gera ráð fyrir því að fólksfjölgun vegna álversins á Bakka verði um 1000-2000 manns í Þingeyjarsýslu," að því er segir í tilkynningu.

Kristján Þ. Halldórsson er Þingeyingur, fæddur 1961, og búsettur á Kópaskeri. Hann lauk BSc námi í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1985 og í rekstrarverkfræði frá háskólanum í Álaborg árið 1992. Á undanförnum árum hefur hann unnið að margvíslegum störfum fyrir fyrirtæki á Norðausturlandi og einnig sem sjálfstæður ráðgjafi, bæði að málefnum sveitarfélaga og verkefnum sem lúta að rekstri fyrirtækja og hugbúnaðarþróun. Síðastliðið ár starfaði Kristján sem atvinnuráðgjafi í hlutastarfi hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga. Kristján er kvæntur Sigríði Kjartansdóttur, sjúkraþjálfara. Þau eiga fjögur börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK