Boðar frekari umbætur í skattamálum

Geir H. Haarde, forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, boðaði frekari umbætur í skattamálum í ræðu sinni á Viðskiptaþingi í dag og sagði að jákvæð reynsla Íslendinga af skattbreytingum á undanförnum árum styrki sig í þeirri trú, að ef við gegnið verði enn lengra í þessum efnum sé hægt að ná meiri árangri við að byggja hér upp öflug fyrirtæki sem aftur skili miklum skatttekjum.

„Við eigum ekki að vera í samkeppni við skattaparadísir um illa fengið fé. En íslensk stjórnvöld eiga að setja sér það markmið að vera með eitt samkeppnishæfasta skattaumhverfi í heimi og ganga helst aldrei skemur en samkeppnisþjóðir okkar í umbótum. Ef við náum árangri í að laða hingað fjármagn skjótum við sterkari stoðum undir hinn opinbera rekstur og tryggjum öflugt velferðarkerfi þjóðarinnar," sagði Geir.

Fram kom í ræðu hans, að samkvæmt íslenskum skattalögum beri að greiða tekjuskatt af söluhagnaði hlutabréfa fyrirtækja, ólíkt arði. Ef fjárfest er aftur innan tiltekins tíma er reyndar hægt að fresta skattgreiðslunni þar til selt er aftur og þannig koll af kolli.

Geir sagði, að ýmsir aðilar hefðu að undanförnu brugðið á það ráð að, stofna sérstök eignarhaldsfélög í löndum þar sem slík skattlagning er ekki fyrir hendi, til dæmis í Hollandi, í þeim eina tilgangi að komast hjá skattgreiðslum. Þessa skattlagningu sé heldur ekki að finna í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og víðar og virðist hún almennt á undanhaldi.

„Ég tel eðlilegt að breyta ákvæðum okkar laga og undanþiggja þessa skattlagningu hér á landi með sama hætti og í okkar nágrannalöndum að uppfylltum hliðstæðum skilyrðum og þar gilda. Þetta mundi ekki hafa í för með sér tekjutap hjá ríkissjóði,“ sagði Geir.

Hann fjallaði einnig um ímynd Íslands, sem er yfirskrift Viðskiptaþings, og sagði að að samstillt átak atvinnulífs og stjórnvalda þyrfti til að bæta ímyndina. „Ég hef því í hyggju að setja saman lítinn starfshóp, sem kalla mætti sérsveit, fámennan vinnuhóp með fulltrúum stjórnvalda og atvinnulífsins til að skoða fordómalaust hvernig við stöndum að vinnu við ímynd Íslands og hvernig við getum náð betri árangri. Við verðum að vera opin fyrir nýjum hugmyndum og leiðum og setja okkur það markmið að Ísland skari framúr, bæði í reynd en einnig hvað varðar ímynd landsins,“ sagði Geir.

Hann ræddi einnig launamun karla og kvenna og sagði að þar væri enn verk að vinna í jafnréttismálum. „Rannsóknir sýna að hann er enn nokkur og það er brýnt að stjórnvöld og fyrirtækin taki höndum saman um að útrýma honum. Í þessum sal situr áreiðanlega enginn sem mundi segja við dóttur sína að hún eigi að fá lægri laun en skólabræður hennar af því að hún sé kona," sagði Geir H. Haarde.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK