Ísland er í hópi samkeppnishæfustu hagkerfa í heimi samkvæmt nýrri skýrslu IMD viðskiptaháskólans í Lausanne í Sviss. Bandaríkin eru í 1. sæti á lista skólans, Singapúr í 2. sæti, Hong Kong í 3. sæti, Lúxemborg í 4. sæti, Danmörk í 5. sæti, Sviss í 6. sæti, Ísland í 7. sæti, Hollandi í 8. sæti, Svíþjóð í 9. sæti og Kanada í því 10.
Ísland hefur heldur færst niður töfluna en landið var í 4. sæti á síðasta ári. Má helst rekja það til þeirrar þenslu sem verið hefur í íslensku efnahagslífi. Á meðal þátta sem standa betur en fyrir ári má nefna bætta nýtingu vinnuaflsins, aukna utanríkisverslun og vaxandi frumkvöðlaanda.
Bandaríska hagkerfið hélt 1. sætinu, eins og það hefur gert frá árinu 1994, þrátt fyrir að viðskiptahalli sé þar í methæðum, hagnaður fyrirtækja sé hátt skattlagður og trú á hæfni stjórnvalda til að ná tökum á opinberum útgjöldum sé ekki mikil. Auðveldast er hins vegar að útvega áhættufjármagn í Bandaríkjunum og þar er tækniþekking einnig hvað mest í heiminum.
Í skýrslu skólans er fjallað um 55 hagkerfi og það hvernig stjórnvöld skapi og viðhaldi umhverfi, sem sé viðskiptalífi hagstætt. Ljóst er að ýmis hagkerfi hafa tekið stór stökk á síðustu árum. Þannig er Kína á hraðri uppleið og er nú í 15. sæti og Indland, Slóvakía og Eistland hafa einnig hækkað umtalsvert. Þýskaland tók hins vegar stærsta stökkið, eða um 9 sæti upp í það 16. Venesúela er í neðsta sæti á listanum, annað árið í röð en þar fyrir ofan eru Indónesía, Króatía, Pólland og Argentína.
Viðskiptaráð annaðist framkvæmd könnunarinnar hérlendis en Glitnir veitir ráðinu liðveislu við framkvæmd hennar. Viðskiptaráð og Glitnir kynna niðurstöður könnunarinnar ítarlega í næstu viku. Ennfremur verða kynntar mögulegar aðgerðir til að bæta ennfremur stöðu íslensks hagkerfis í alþjóðlegu samhengi.