Rekstrarkostnaður FL Group ekki óeðlilega hár

Hannes Smárason
Hannes Smárason mbl.is/Golli

Rekstrarkostnaður FL Group er ekki óeðlilegur og ekki eins hár og menn láta í veðri vaka, að því er Hannes Smárason, fráfarandi forstjóri FL Group, segir í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

„Og kannski er helst við okkur að sakast í þeim efnum að hafa ekki útskýrt þetta nægilega vel fyrir markaðnum og leyft þessum misskilningi að grassera.“ Hann segist ekki vera hálfdrættingur á við forstjóra stærstu félaga landsins í launum.

„Ef þú horfir á fyrrverandi forstjóra FL Group, sem situr hérna við borðið, og svo forstjóra X, þú mátt velja þér nafn í það box, svo framarlega sem það er eitt af fimm stærstu fyrirtækjum á landinu, í hvers hópi við erum. Ef þú horfir á laun strípuð var forstjóri FL Group með 4 milljónir á mánuði. En X myndi vera með í laun í kringum 80 til 90 milljónir á ári. Ef þú horfir á bónusa er forstjóri FL Group með núll, en forstjóri X með aðrar 80 til 90 milljónir.

Þannig að forstjórar stærstu félaganna hér á landi leggja sig á 160 til 180 miljónir króna á ári en ekki tæpar 50 milljónir eins og ég gerði.

Engir bónusar eða kaupréttir

Ef þú horfir síðan á kauprétti var forstjóri FL Group með núll, forstjóri X með…köllum það einhverja milljarða. Síðan ef þú heldur áfram og talar um risnu og ferðakostnað, þá get ég upplýst að ég hef aldrei rukkað félagið um einn einasta hótelreikning eða útlagðan kostnað við gistingu eða uppihald eða neitt sem tengist slíkum hlutum,“ segir hann og bætir við um ferðakostnað:

„Þar hefur forstjóri FL Group haft nákvæmlega sama háttinn á og X. Félagið hefur staðið undir þeim kostnaði, stundum með einkaþotu og stundum með öðrum hætti.“

Hannes heldur áfram um rekstrarkostnaðinn: „Af framangreindum ástæðum tel ég að rekstrarkostnaður forstjóra FL Group hafi hvorki verið óeðlilegur né hár. Ég tók þá ákvörðun strax og ég varð forstjóri að semja um hóflegar greiðslur til mín fyrir þann þátt. Minn ávinningur var fyrst og fremst sá að vera fremstur meðal jafningja, út frá hlutabréfaeign, og þeim arði sem félagið greiddi. Og það hefur greitt góðan arð, ég get ekki kvartað undan því að hafa ekki haft úr miklu að moða enda þótt ég hafi ekki verið hálfdrættingur á við forstjóra stærstu félaga landsins í launum og þar að auki án bónusa þeirra og kauprétta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK