Kreppan, sem herjar nú á bankakerfið víða um heim, er hvergi verri í Evrópu en í Danmörku. Þetta fullyrðir danska viðskiptablaðið Børsen í dag og segir ástæðuna þá, að auk lausafjárskorts, sem bankar um allan heim glími nú við, lækki fasteignaverð nú hratt í Danmörku og þar með verðgildi veða sem bankar hafa fyrir lánum sínum á innanlandsmarkaði.
Blaðið hefur m.a. eftir Andreas Håkansson hjá fjárfestingarbankanum UBS, að fasteignaverð í Danmörku hafi hækkað verulega þar til haustið 2006 en á sama tíma hafi framboð á nýbyggingum einnig náð hámarki. Þess vegna hafi verið offramboð á fasteignamarkaði sem hafi leitt til verðfalls. Hjá dönskum bönkum snúist máli ekki aðeins um að útvega fjármagn heldur séu veðin að rýrna.