Kenna McCain um

Bush á fundi með leiðtogum Bandaríkjaþings og forsetaframbjóðendum í Hvíta …
Bush á fundi með leiðtogum Bandaríkjaþings og forsetaframbjóðendum í Hvíta húsinu í gærkvöldi. AP

Bandarískir demókratar saka John McCain, forsetaframbjóðanda repúblikana, um að hafa orðið þess valdandi að  snurða hljóp á þráðinn í viðræðum um opinbera björgunaráætlun fyrir fjármálakerfið. Hart var deilt á fundi í Hvíta húsinu í gærkvöldi, þar sem bæði McCain og Barack Obama, forsetaefni demókrata, voru viðstaddir.

Svo virtist í gær sem samkomulag hefði náðst milli beggja flokka á Bandaríkjaþingi um útfærslu á áætlun ríkisstjórnar Georges W. Bush, Bandaríkjaforseta en samkvæmt henni er gert ráð fyrir að 700 milljörðum dala verði varið til að kaupa verðlaus fasteignaskuldabréf og önnur verðlaus skuldabréf af fjármálastofnunum. Eftir fundinn í Hvíta húsinu í gærkvöldi ríkir hins vegar mikil óvissa um stöðu mála.

„Ég tel ekki að það sé neitt samkomulag," sagði Richard Shelby, öldungadeildarþingmaður repúblikana, eftir fundinn. Mikil óvissa ríkir nú um málið og er búist við að samningaviðræður standi yfir alla helgina.

Demókratar, sem sátu fundinn, sögðust á eftir hafa það á tilfinningunni, að McCain styðji tillögur, sem hópur íhaldssamra þingmanna repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings  hefur kynnt. Þær tillögur eru í veigamiklum atriðum frábrugðnar áætlun Bush.

„John McCain lagði ekkert að mörkum til að leysa málið. Það eina sem hann gerði var að skaða ferlið," sagði Harry Reid, þingflokksformaður demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings. „Þetta minnti á það þegar Richard Nixon eyðilagði friðarviðræðurnar við Víetnama árið 1968."

Repúblikanar segja hins vegar að McCain hafi hvorki hafnað né samþykkt neinar tillögur á fundum í gær.

Áætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir að Bandaríkjaþing samþykki 700 milljarða dala fjárveitingu, sem notuð verði til að kaupa verðlaus og verðlítil skuldabréf sem fjármálastofnanir sitja uppi með. 250 milljörðum af þessari upphæð verði  notaðar strax en 100 milljarðar verði notaðir ef þörf krefur og Bandaríkjaþing heimilar. Þeir 350 milljarðar dala sem eftir eru verði síðan notaðar síðar ef nauðsyn ber til og það er einnig háð samþykki Bandaríkjaþings.

Nýju tillögurnar, sem þingmenn repúblikana viðruðu í gær, ganga hins vegar út á að í stað þess að kaupa upp skuldabréfin gefi stjórnvöld bönkunum einskonar tryggingu sem notuð verði til að frysta lánin.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK