Sameining Glitnis og Landsbanka ólíkleg

Höfuðstöðvar Glitnis.
Höfuðstöðvar Glitnis. mbl.is/Kristinn

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins, að hann teldi ekki líkur á því í núverandi stöðu, að Glitnir og Landsbankinn sameinist. Þá sagðist hann nú telja mikinn vafa leika á því, að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, væri hæfur samkvæmt stjórnsýslulögum til að taka ákvarðanir um málefni Glitnis í ljósi fyrrum samskipta hans og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Þorsteinn Már sagði,  að skattgreiðendur hefðu hagnast um 115 milljarða í dag vegna þess, að lokagengi bréfa Glitnis í viðskiptum í Kauphöll Íslands var 4,55 en miðað við samning ríkisins fær það hlutinn í Glitni á 1,97. Ef samruni Glitnis og Landsbankans væri leið til að hluthafar Glitnis fengju hærri greiðslu fyrir bankann en samkomulagið við ríkið gerir ráð fyrir, þá myndi hann styðja það.

„Ég vona að ríkið sé það sanngjarnt að það muni færa núverandi hluthöfum ríkisins þann hagnað," sagði Þorsteinn Már en sagði aðspurður að hann teldi ekki líkur á slíkri sameiningu í dag.

Þorsteinn Már sagðist hafa velt því fyrir sér að segja af sér sem stjórnarformaður bankans en ríkisstjórnin hefur boðið honum að sitja áfram þótt ríkið eignist 75% af hlutafé bankans. Traust þyrfti að ríkja  á milli stjórnarformanns Glitnis og seðlabankastjóra. Þorsteinn Már sagðist þó að minnsta kosti hafa ákveðið að sitja næstu daga og undirbúa hluthafafund, sem yrði haldinn eins fjótt og unnt er.

Þorsteinn Már sagði að stjórnendur Glitnis hefðu leitað til Seðlabankans í síðustu viku og beðið um lán gegn veðum. Upphaflega hefði verið boðinn veðpakki upp á 750 milljónir evra fyrir 600 milljóna evra lán. Síðan hefði verið boðinn fram veðpakki sem metinn sé á 1340 milljónir evra. Um var að ræða veð í eignasafni Glitnis í Noregi.

Mál hefðu hins vegar þróast þannig, að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, og Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefðu sett forsvarsmönnum Glitnis afarkosti á sunnudagskvöld og þá hafi staðan verið orðin afar þröng.

Þegar Helgi Seljan, fréttamaður, spurði hvort það hefðu þá í ljósi þessa ekki verið mistök að leita til Seðlabankans svaraði Þorsteinn Már játandi.  „Ég get eingöngu sagt við hluthafa í dag. Ég bið ykkur afsökunar vegna þess að stærri mistök hef ég ekki gert."

Þorsteinn Már sagði einnig, að þegar Davíð Oddsson hefði boðað til blaðamannafundar til að kynna niðurstöðuna á 10. tímanum á mánudag hefðu ekki legið fyrir undirskriftir allra stjórnarmanna Glitnis á samkomulagið.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK