Hryðjuverkalögum beitt gegn Landsbanka

Höfuðstðvar Landsbankans í Reykjavík.
Höfuðstðvar Landsbankans í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Bresk stjórnvöld beittu lögum um varnir gegn hryðjuverkum þegar þau ákváðu að frysta eignir Landsbankans á Bretlandseyjum vegna greiðsluþrots netbankans Icesave. Breska viðskiptablaðið Financial Times segir frá þessu á fréttavef sínum í kvöld.

Um er að ræða lög um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggismál, sem sett voru eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001.

Blaðið hefur eftir lögmönnum, að aðgerðir fjármálaráðuneytisins, sem eigi sér enga hliðstæðu, geti valdið verulegum vandræðum fyrir aðrar stofnanir, sem voru í viðskiptum við Landsbankann.

Að sögn FT eru fjármálalegar eignir Landsbankans í Bretlandi metnar á 4 milljarða punda en alls eru eignir bankans þar metnar á 7 milljarða punda. Talið er að 4,6 milljarða þurfi til að greiða hundruð þúsundum reikningseigenda Icesave innistæður sínar til baka. Áætla embættismenn að um 2,4 milljarðar punda muni lenda á herðum skattgreiðenda en Alistair Darling, fjármálaráðherra, ákvað í dag að reikningseigendur fái fjármuni sína að fullu greidda. 

Óvissa ríki hins vegar um hvort stórir viðskiptavinir, þar á meðal tugir breskra sveitarfélaga og nokkrir háskólar, sem áttu fé á Icesave, fái slíkan stuðning. Sumar sveitarstjórnir hafa tapað allt að 40 milljónum punda. Samband breska sveitarfélaga hvatti Darling til að láta tryggingu breskra stjórnvalda einnig ná yfir þessa aðila. Darling sagði hins vegar á breska þinginu, að þeir væru upplýstir fjárfestar og hefðu því aðra stöðu en venjulegir sparifjáreigendur.

FT segir að eftir að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hótaði  Íslendingum lögsókn í morgun ef þeir stæðu ekki við skuldbindingar sínar um tryggingar á innlánum Icesave, virtist ástandið í samskiptum þjóðanna vera komið á svipað stig og í þorskastríðunum á síðustu öld. 

Breskir og íslenskir embættismenn sögðu þó undir kvöld, að samband ríkjanna væri ekki eins slæmt og yfirlýsingarnar gæfu til kynna.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK