Simbabve norðursins

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, Lars Christensen og Carsten Valgreen …
Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, Lars Christensen og Carsten Valgreen á fundi í Reykjavík fyrir rúmum tveimur árum. mbl.is/Árni Sæberg

Carsten Valgreen, fyrrum aðalhagfræðingur Danske Bank, segir við danska blaðið Politiken í dag, að efnahagsvandamál Íslands séu svo umfangsmikil, að farið sé að minna á ástandið í Simbabve. Segir hann að aðeins Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geti nú bjargað Íslandi.

Valgreen starfar nú hjá bandaríska greiningarfyrirtækinu Benderly Economics, sem er með höfuðstöðvar í Colorado og útibú í Kaupmannahöfn. 

„Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart, ekki heldur Íslendingunum sjálfum. Fyrir tveimur árum fór ég í heimsókn þangað, kom fram í íslensku sjónvarpi og varaði við vandamálunum. Íslendingar og umheimurinn hafa vitað í að minnsta kosti þrjú ár, að þetta gæti ekki gengið svona lengi. En þá skortir hæfileikann til að hlusta og bregðast við í tíma," segir Valgreen við blaðið. 

Hann segir, að ástandið sé svo erfitt, að ekkert land í Evrópu, hvað þá Norðurlöndin, geti komið Íslandi til bjargar. 

„Norrænu seðlabankarnir aðstoðuðu Íslendinga með gjaldeyriskaup fyrr á árinu. En fjármálakreppan gerir það að verkum, að þeir muni ekki koma nú með björgunarhring. Þá hafa íslensk stjórnvöld tekið á málinu með versta mögulega hætti. Í síðustu viku tilkynntu þau að Rússar ætluðu að veita þeim 4 milljarða evra lán. En sú tilkynning hafði ekki verið borin undir Rússana og þá var skaðinn skeður," sagði Valgreen.

Jesper Rangvid, prófessor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, segir við blaðið, að ástandið á Íslandi endurspegli fullkomið vantraust á því að íslenska hagkerfið komist í gegnum krísuna. Fjármálakerfið eigi í miklum vandamálum sem sjáist á því að ríkið hafi yfirtekið þrjá stærstu banka landsins. Óttast sé að bankarnir hætti að lána til fyrirtækja og einstaklinga - eins og raunin raunar sé. Ef fyrirtæki geti ekki fjárfest og einstaklingar geti ekki keypt neysluvörur þá er voðinn vís.

Valgreen segir, að margt sé líkt með ástandinu á Íslandi og kreppunum sem gengu yfir Færeyjar í byrjun 10. áratugar síðustu aldar og Taíland árið 1996.  Taílendingar höfðu tekið of mikið af erlendum lánum og þar  tók taílenska ríkið stjórnina á bönkum landsins. 

Á Íslandi hafi lántökurnar staðið yfir í mun lengri tíma þótt allir hefðu átt að gera sér grein fyrir hversu óábyrg sú stefna sé. 

„Þetta er farið að minna á Simbabve, en þar er þó hægt að benda á ríkið sem syndasel," segir Valgreen.  „Og Íslendingar eru byrjaðir að hamstra og það eru vísbendingar um yfirvofandi vöruskort."

Hann segir, að vandamálið  á Íslandi sé þó án fordæma vegna þess að bankarnir hafi verið níu sinnum stærri en verg landsframleiðsla Íslands. Svo virðist, sem efnahagsframganga Íslendinga og ábyrgðarleysi tengist því eitthvað, að þeir séu fámenn eyþjóð.  Í slíkum samfélögum skorti oft á gagnrýna yfirsýn þegar teknar eru ákvarðanir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK