Uppskeran eins og sáð var

Davíð Oddsson, Erlendur Hjaltason og Friðrik Már Baldursson á fundi …
Davíð Oddsson, Erlendur Hjaltason og Friðrik Már Baldursson á fundi Viðskiptaráðs í morgun mbl.is/Kristinn

Seðlabankastjóri segir að nýliðinn október líði seint úr minni. Þá urðu veðrabrigði til hins verra. Þá leystust öfl úr læðingi sem höfðu lengi búið undir. Segir hann að uppskera mánaðarins hafi verið ömurleg og úr sér í gengin en að mestu eins og sáð hafði verið til. Segir hann að fyrirhyggjuleysi sáðmanna hafi þar ráðið miklu.

Davíð hafði framsögu á fundi Viðskiptaráðs í morgun og sagði, að Íslendingar væru reiðir og skyldi engan undra.  Uppskerubrestur síðasta mánaðar muni leiða til þess að þrengra verður í búi hjá flestum og afar þröngt hjá sumum. Eðlilegt sé því að fólk sé reitt.

Mikil eftirspurn er eftir sökudólgum en lítið framboð, sagði Davíð. Hins vegar hafi verð á sökudólgum ekki hækkað fram úr hófi. Sagðist hann telja að bankastjórn Seðlabankans hafi verið á toppnum á listanum yfir sökudólga um talsverðan tíma en magnað væri, að þeir sem beri mesta sök hafi hæst.

„En þeir eru einnig til sem telja að nú sé lag til að beina reiðinni og sárindunum fyrir vagn síns eigin haturs og hagsmuna.

Og það hefur tekist furðu vel fram að þessu, það er ekki hægt að segja annað. Enda tækin til þess enn til staðar og enn í réttum höndum. En sá leikur tekur vonandi enda og mun taka enda, því það var rétt hjá Abraham Lincoln, að þú getur blekkt ákveðinn hóp manna um ákveðinn tíma, en þú getur ekki blekkt alla þjóðina um allar stundir.

Og það er mikil eftirspurn eftir sökudólgum um þessar mundir, en harla lítið framboð. En aldrei slíku vant hefur sú mikla markaðsregla, mikil eftirspurn andspænis litlu framboði, ekki leitt til þess að verð á sökudólgum hafi hækkað að ráði. En ég er ekki frá því að síðustu vikurnar hafi Seðlabanki Íslands og forystan þar verið í toppsæti á sökudólgalistanum og það er eiginlega ekki hægt annað en að dást svolítið að því, að það hafi gengið svona lengi, svo langsótt sem það er. Og það magnaða er að á bak við þann áróður allan standa m.a. þeir sem mesta ábyrgð bera á því hversu illa tókst til."

Davíð sagði, að árið 1998 hefði lögum verið breytt og bankaeftirlit farið frá Seðlabanka til Fjármálaeftirlitsins. Eftir sitja verkefni eins og lausafjárskýrslur og fleira sem litlu skipti í því sem nú hefur gerst. Heimildir Fjármálaeftirlitsins voru stórauknar með lagabreytingunni og stofnunin fékk víðtæk úrræði til þess að fá upplýsingar úr bankageiranum, skoða í hverja kytru í bankastofnunum til þess að kanna hvort allt sé með felldu.

Seðlabankinn hafi hins vegar engin slík úrræði og geti ekki komið í veg fyrir að bankar opni útibú erlendis og safni þar innistæðum.

Seðlabankastjóri sagði, að það geti hafa verið mistök að flytja þetta eftirlit úr Seðlabankanum en of seint sé að fást þar um nú. Því sé ekki hægt að ásaka bankann um eitthvað sem hann geti  ekki breytt og ljótan leik að ráðast á bankann af mönnum sem vita betur; ljótan leik sem hefði ekki verið ef komist hefði skikkan á eignarhald fjölmiðla.

 „Í öllu þessu gerningaveðri og galdrafári hefur tekist að horfa fram hjá því að árið 1998 var lögum á Íslandi breytt svo, að bankaeftirlit var undan Seðlabanka Íslands tekið og með því fóru nær allar heimildir bankans og skyldur til að fylgjast með því sem var að gerast innan bankakerfisins. Eftir sitja verkefni á borð við lausafjárskýrslur, gengisjafnaðarreglur, veðlán og fleira þess háttar, sem litlu máli skipta í því sem nú hefur gerst. Allar leyfisveitingar sem snúa að fjármálastofnunum voru færðar frá Seðlabanka til nýs Fjármálaeftirlits.

Heimildir þess, sem voru allvíðtækar fyrir, voru auknar og fjárframlög til þess hafa vaxið stórlega á undanförnum árum. Eftirlitið hefur víðtækar heimildir og úrræði til að fá upplýsingar frá bankakerfinu, svo það megi gegna sínu hlutverki, og úrræði til að knýja fram breytingar á háttsemi og heimildir til þess að fara ofan í hverja kytru, skúffu og skáp í bankastofnunum til að sannfæra sig um að allt sé þar með felldu.

Seðlabankinn hefur engin þess háttar úrræði lengur, enda hlutverki hans breytt. Hann getur þannig ekki sett tilsjónar- eða eftirlitsmenn inn í bankana, ef hann vildi, eins og Fjármálaeftirlitið getur. Hann getur ekki staðreynt hvort reglur um lánveitingar til eigenda banka eða til skyldra aðila séu virtar, eða hvort veðtaka, t.d. gagnvart lánum vegna hlutabréfakaupa séu með eðlilegum hætti eða ekki.

Seðlabankinn getur ekki komið í veg fyrir að bankar opni útibú erlendis og safni þar innstæðum. Þessu var öllu breytt. Það má vera að það hafi verið mikil mistök að færa fjármálaeftirlit undan Seðlabanka, en það er önnur saga. Það var gert og því þýðir ekki að láta eins og Seðlabankinn hafi bæði þær skyldur og þau úrræði ennþá á sinni hendi og þess vegna sé hægt að veitast að honum með offorsi fyrir að sinna ekki því eftirliti sem hann hafði á hendi fyrir réttum áratug síðan.

Þeir sem kynda undir árásum á Seðlabankann eiga flestir að vita betur og hafa þeir því viljandi litið fram hjá þessum meginatriðum. Er það ljótur leikur, sem ekki hefði tekist ef skynsamleg skipan hefði komist á eignarhald fjölmiðla í þessu landi.

Eftir að bankaeftirlit var frá Seðlabankanum skilið, var skv. lögum eftir það meginverkefni hans, að leitast við að halda verðbólgu í skefjum með því sem næst eina tækinu sem honum var til þess fengið, vaxtatækinu. Þá átti bankinn að annast um að greiðslukerfi landsins virkuðu og það hefur tekist meira að segja eftir að nær allt bankakerfið hafði hrunið, að halda því í fullum gangi og var það ekki auðveldur leikur.

En barátta gegn verðbólgu er meginmarkmiðið og vaxtatækið nánast eina tækið til að ná því markmiði eins og fyrr sagði. Ef önnur öfl í þjóðfélaginu taka virkan þátt í baráttunni gegn verðbólgu, þá virkar vaxtatækið ágætlega og því má beita af hógværð, en einmitt við hófsama beitingu virkar vaxtatækið best. Ef önnur öfl í þjóðfélaginu toga í aðrar áttir en Seðlabankinn, á hann engan annan kost en að beita vaxtatækinu af minni hófsemd og jafnvel fast að hófleysi og þá fjölgar þeim óheppilegu fylgikvillum sem vaxtatækinu fylgja. Sú staða hefur því miður verið uppi síðustu misseri og ár vegna mikillar þenslu á opinberum vettvangi og gríðarlegrar útlánaaukningar bankakerfisins.

Bankakerfið stærði sig opinskátt af því að koma mönnum undan því að vera háðir vaxtastefnu Seðlabankans með því að hefja lánveitingar í erlendri mynt til aðila sem höfðu engar tekjur eða litlar í þeirri mynt. Þetta hvort tveggja var skaðvaldur gagnvart verðbólgu og þeim sem líða fyrir þegar verðbólga vex. Iðulega hefur verið mikið um það rætt, að endurskoða þurfi peningamálastefnuna eins og það heitir, en sjaldan fylgja skynsamlegar skýringar á því atriði óskalistans. Enginn vill þó segja beint að það eigi að hætta að berjast gegn verðbólgunni, þótt sumir hverjir vilji „hleypa henni í gegn”, eins og það er orðað. Það er látið nægja að segja að endurskoða beri peningamálastefnuna. Það er mátulega þokukennd yfirlýsing til að hún fari vel í munni þeirra sem ekki vita nákvæmlega um hvað þeir eru að tala.

En þrátt fyrir óljós markmið af þessu tagi hefur Seðlabankinn valið þann kostinn að taka vel í þess háttar hugmyndir og hvatt til að menn endurskoði peningamálastefnuna og geri það sem allra fyrst.

Reyndar er það svo, að á þá stefnu er reglubundið horft og hún að því leyti til endurskoðuð af erlendum sérfræðingum, tvisvar til þrisvar á ári. Til dæmis hafa OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn iðulega tekið hana til rækilegrar skoðunar og jafnan áréttað, að Seðlabankinn hafi í meginatriðum verið á réttri leið í mótun og beitingu peningastefnunnar, en mikið hafi vantað upp á að aðrir hafi lagst á árar með honum og því hafi heldur illa miðað.

Ég geri því fremur ráð fyrir því að við endurskoðun peningamálastefnunnar, sem ég ítreka að Seðlabankinn leggst síst gegn, er afar sennilegt að þetta muni enn koma fram af hálfu erlendra aðila. En sem sagt eftir að bankaeftirlitið var frá Seðlabankanum tekið var einnig skilið eftir hjá bankanum það verkefni að hafa auga með og stuðla að fjármálastöðugleika eins og það er kallað, þótt Seðlabankanum séu ekki fengin öflug úrræði til þess. Hann á sem sagt í því efni að láta í ljós skoðun sína gagnvart almenningi eftir því sem við á, gagnvart yfirvöldunum í landinu og gagnvart bankastofnununum sjálfum. Hann getur haft í frammi ábendingar og tilmæli af ýmsu tagi, en þvingunarúrræðin eru ekki fyrir hendi. Þau voru öll flutt til Fjármálaeftirlitsins.

Því má spyrja vegna þessa verkefnis Seðlabankans, hvort þar hafi honum ekki brugðist bogalistin og það illilega. Sinnti hann þessu hlutverki sínu vel eða illa? Áttaði hann sig ekki á því hvernig komið var eða í hvað stefndi? Og það er von að spurt sé, því það hefur margoft verið látið að því liggja, að hrun bankakerfisins hafi komið öllum í opna skjöldu nú í október, og sumir hafa jafnvel haldið því fram að hrun þess hafi verið óþarft og heimatilbúið því eingöngu hefði þurft að lána Glitni ca. 80 milljarða króna samkvæmt hraðbeiðni þess banka og þá hefði allt verið í himnalagi. Þetta er slík bábilja að ekki tali tekur, en þó gefst vonandi tækifæri til að fara í gegnum þann þáttinn sérstaklega síðar.

En um hitt, að bankakreppan hafi komið sem þruma úr heiðskíru lofti og lagt allt í rúst, vil ég fjalla örlítið nánar. Og einnig um þær fullyrðingar að Fjármálaeftirlit, Seðlabanki og stjórnvöldin í landinu hafi ekki vitað eða ekki fengið að vita í hvað stefndi. Bankarnir sem fóru í þrot hafa haldið því fram upp á síðkastið að í raun hafi hlutirnir verið í bærilegu lagi hjá þeim, en framganga stjórnvaldanna hafi eins og að framan sagði, leitt þá í þrot. Þannig hefur myndin verið dregin upp, afbökuð mjög og í skötulíki," sagði seðlabankastjóri.

Ræða Davíðs Oddssonar


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK