Fréttaskýring: Íslenskt ástand í Sviss

Kona í hópi mótmælenda fyrir framan aðalstöðvar USB í Zurich
Kona í hópi mótmælenda fyrir framan aðalstöðvar USB í Zurich Reuters

„Hróflaðu við peningunum þeirra og Svisslendingar verða brjálaðir,“ hefur BBC-vefurinn eftir Bernhard Weissberg ritstjóra dagblaðsins Blick. Almennt eru Svisslendingar þó seinþreyttir til vandræða eins og Íslendingar, og þess vegna þóttu það nokkur tíðindi þegar fleiri þúsund manns efndu til mótmæla á laugardag fyrir rúmri viku fyrir framan aðalstöðvar svissneska bankans UBS til að láta í ljós óánægju sína með björgunaraðgerð stjórnvalda gangvart bankanum upp á nærri 75 milljónir svissneskra franka, jafnvirði um 8,5 þúsund milljarða króna.

Það ríkir sem sagt vísir að Íslands-ástandi í Sviss. Mótmælendur komu allsstaðar af að landinu eftir herkvöð frá alþýðusambandinu í Sviss, sem áætlar að 3500 manns hafi tekið þátt í mótmælunum. Héldu mótmælendur m.a. á spjöldum sem á stóð: UBS: United Bandits of Swiss og Látum ekki bankana fara ránshendi um almannasjóði.

Svisslendingar tilkynntu um björgunarpakka fyrir UBS, stærsta banka Sviss, um miðjan október en bankinn er í hópi þeirra sem fyrir mestum áföllum hafa orðið af völdum undirmálslánanna í Bandaríkjunum. Þar fyrir utan hefur einn af æðstu mönnum bankans verið ákærður fyrir þátttöku í samsæri um að svíkja fé að andvirði um 20 millljarða dala undan skatti í Bandaríkjunum.

Viðskiptamenn UBS hafa frá því í júlí fram í september sl. alls tekið um 83,6 milljarða svissneskra franka út af reikningum í bankanum svo að í reynd má segja að gert hafi verið áhlaup á bankann, að því er fram kemur hjá AFP-fréttastofunni.

Þetta hefur verið afleitt ár fyrir yfirmenn UBS. Fréttaritari BBC rifjaði á dögunum upp hluthafafund í bankanum fyrr á árinu. Í hluthafahópi UBS eru þúsundir lítilla hluthafa, flestir í þokkalegum efnum, yfirleitt í efri kantinum í aldri og enginn þeirra átti von á að gengi bréfa þeirra myndi skreppa saman um helming á fáeinum mánuðum.

Á fundinn voru mættir um 6000 hluthafar og andrúmsloftið var lævi blandið. „Við vitum auðvitað að fjárfesting er áhætta, en við áttum ekki von á þessu - við viljum vita hver ber ábyrgðina,“ sagði talsmaður eins hluthafahópsins.

Stjórnarformaður USB fær í svanginn

Hinir ábyrgu voru svo sannarlega á svæðinu, - á upphækkuðu sviðinu í rándýrum klæðnaðinum  og með kastljósin á sér. Út frá ímyndartilbúningi almannatengslakenninga gat myndin varla verið mikið verri, segir BBC-maðurinn.

Svisslendingar vita að stjórnendur UBS voru meðal þeirra sem höfðu hæstu launin í Evrópu. Við það bættist svo ríkulegur kaupaukinn sem þeir héldu áfram að veita sér löngu eftir að fjármálakreppan var skollin á.

Einum hluthafanum var algjörlega misboðið, stökk upp á sviðið og sneri sér að stjórnarformanninum Marcel Ospel og hreytti framan í hann að honum væri nær af skila aftur kaupaukanum sínum. „Og ef þú skyldir svelta er ég hér með svolítið handa þér,“ sagði hann og dró upp úr vasa sínum hefðbundnar svissneskar pylsur samhangandi á þræði og sveiflaði fyrir framan titrandi nefið á hr. Ospel.

Fréttamaður BBC segir þetta ógleymanlega stund en sýni vel hversu reiðir Svisslendingar eru. Þó Sviss sé núna velstætt land, hafi það mátt þola hungursneyð á 19. öldinni og þau harðindi lifi enn með þjóðinni. Svisslendingar séu þar af leiðandi afar varkárir, hati tilhugsunina um að peningar geti orðið til af engu, hvað þá að hagnast um milljónir meðan milljarðar fara í súginn.

Stjórnendur bankans höfðu fullvissað hluthafana að bankinn væri að rétta við þegar þeir þáðu björgunarpakka yfirvalda, sem áður er nefndur og stóð reyndar öllum bönkunum þar til boða. En þetta var meira en skattgreiðendur vildu láta bjóða sér.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um bann við ofurlaunum

Marcel Ospel hefur nú látið af stjórnarformennsku í bankanum, og nýtt launakerfi í bankanum með færri kaupaukum hefur verið tilkynnt. Hins vegar hefur Ospel hafnað kröfum um að hann skili aftur kaupauka síðasta árs sem svarar til röskra tveggja milljarða króna.

„Hinn venjulegi Svisslendingur finnst hann hafa verið svikinn af UBS,“ er haft eftir Hans Geiger, bankagreinanda. „Bankinn hefur hér sérstöðu, er með 25% hlutdeild á markaðinum sem er rosalegt. Við trúðum því að USB væri með bestu áhættustýringuna en hið gagnstæða hefur nú komið í ljós.“

Svisslendingar hafa eins og áður segir yfirgefið USB í hrönnum, og margir minni bankanna haf notið flóttans í ríkum mæli. Einn þeirra sem lokað hefur reikningum sínum hjá USB er Thomas Minder, framkvæmdastjóri hjá litlu en velstæðu fyrirtæki.  Hann heldur því fram að hrapalegar fjárfestingar bankans í undirmálslánunum séu órafjarri svissneskum hugsunarhætti.

„Þessi undirmálslán eru amerísk uppfinning,“ segir hann í vandlætingartón, „en svissneskur banki lét flækja sér í þau.“

Minder hefur á sinn þjóðrækna máta ákveðið að nýta sér algjörlega svissneska aðferðarfræði til að koma í veg fyrir að þessu líkt geti endurtekið sig. Hann ætlar að beita kerfi Svisslendinga um beint lýðræði og hefur safnað um 100 þúsund undirskriftum til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu til að binda endi á „fyrirtækjasukk“, eins og hann orðar það. Tillögurnar fela í sér að banna gullna handabandið (svipað því sem Lárus Welding fékk þegar hann var keyptur til Glitnis), að árangurstengja kaupaukana undantekningalaust og ofurlaun verði óheimil.

Fréttaritari BBC í Sviss segir svissneska fyrirtækjastjórnendur geta þakkað fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslan geti ekki farið fram fyrr en að ári - stemningin meðal þjóðarinnar sé slík um þessar mundir að yrði kosið á morgun um tillögu Thomasar Minder þyrfti ekki að spyrja að leikslokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK